Skjálfti af stærðinni 5,6 varð á eyjunni Jövu í Indónesíu í morgun. Skólar, sjúkrahús og aðrar opinberar byggingar skemmdust í skjálftanum og urðu rúmlega tvö þúsund heimili fyrir einhverjum skemmdum.
Upptök skjálftans voru um hundrað kílómetra frá höfuðborg Indónesíu, Jakarta, og fannst skjálftinn vel þar. Fólk flykktist út á götur borgarinnar beint eftir skjálftann.
Spítalinn í bænum Cianjur, sem er sá þéttbýlisstaður sem er hvað næst staðnum þar sem upptök skjálftans voru, glímdi við rafmagnsleysi í nokkra klukkutíma í kjölfar skjálftans. Því þurftu viðbragðsaðilar að hlúa að fólki á bílastæðinu fyrir utan spítalann.