Sádar toppuðu Ísland og sigruðu Messi Sindri Sverrisson skrifar 22. nóvember 2022 11:52 Sádar fagna markinu sem reyndist sigurmarkið gegn Argentínu. Getty Sádi-Arabía töfraði fram einhvern óvæntasta sigur í allri sögu HM karla í fótbolta þegar liðið hafði betur gegn Lionel Messi og félögum í argentínska landsliðinu, 2-1. Suður-amerísku meistararnir höfðu ekki tapað í 36 leikjum í röð fyrir leikinn í dag. Það leit líka allt vel út hjá Argentínu framan af leik og eftir tíu mínútna leik var Messi búinn að koma liðinu yfir með marki úr vítaspyrnu. Þetta er fimmta og líklega síðasta tilraun hans til að verða heimsmeistari, og hún byrjar á versta veg. Argentínumenn voru mun meira með boltann í fyrri hálfleiknum og rangstöðutaktík Sádana var oft á tæpasta vaði. Lautaro Martínez virtist í eitt skiptið hafa komið Argentínu í 2-0 en var millímetrum of innarlega þegar sendingin lagði af stað til hans. Argentína var engu að síður 1-0 yfir í hálfleik og virtist ekki þurfa að hafa neinar áhyggjur af sóknartilburðum Sáda, sem sitja í 51. sæti heimslistans. Á fyrstu átta mínútum seinni hálfleiks skoruðu Sádar hins vegar bæði mörk sín. Saleh Al-Shehri jafnaði fyrst metin eftir að Sádar höfðu unnið boltann af Messi á miðjunni, og Salem Al-Dawsari skoraði sigurmarkið með glæsilegu skoti af vítateigslínunni. Stemningin á meðal Sáda í stúkunni í Katar var mögnuð á meðan að stuðningsmenn Argentínu urðu smám saman steinrunnir þar sem þeir horfðu á hverja sóknina á fætur annarri fara forgörðum. Þeir fengu fáein mjög góð færi til að jafna en Mohammed Al-Owais var öryggið uppmálað í marki Sáda, sem börðust með kjafti og klóm við og í eigin vítateig, og uppskáru að lokum ótrúlegan sigur. Argentína er því komin í erfiða stöðu í C-riðli, fyrir leikina við Mexíkó og Pólland en þau lið mætast í dag klukkan 16. Argentínumenn byrjuðu einnig illa á HM fyrir fjórum árum, með 1-1 jafntefli við Ísland, og féllu þá úr keppni í 16-liða úrslitum. HM 2022 í Katar
Sádi-Arabía töfraði fram einhvern óvæntasta sigur í allri sögu HM karla í fótbolta þegar liðið hafði betur gegn Lionel Messi og félögum í argentínska landsliðinu, 2-1. Suður-amerísku meistararnir höfðu ekki tapað í 36 leikjum í röð fyrir leikinn í dag. Það leit líka allt vel út hjá Argentínu framan af leik og eftir tíu mínútna leik var Messi búinn að koma liðinu yfir með marki úr vítaspyrnu. Þetta er fimmta og líklega síðasta tilraun hans til að verða heimsmeistari, og hún byrjar á versta veg. Argentínumenn voru mun meira með boltann í fyrri hálfleiknum og rangstöðutaktík Sádana var oft á tæpasta vaði. Lautaro Martínez virtist í eitt skiptið hafa komið Argentínu í 2-0 en var millímetrum of innarlega þegar sendingin lagði af stað til hans. Argentína var engu að síður 1-0 yfir í hálfleik og virtist ekki þurfa að hafa neinar áhyggjur af sóknartilburðum Sáda, sem sitja í 51. sæti heimslistans. Á fyrstu átta mínútum seinni hálfleiks skoruðu Sádar hins vegar bæði mörk sín. Saleh Al-Shehri jafnaði fyrst metin eftir að Sádar höfðu unnið boltann af Messi á miðjunni, og Salem Al-Dawsari skoraði sigurmarkið með glæsilegu skoti af vítateigslínunni. Stemningin á meðal Sáda í stúkunni í Katar var mögnuð á meðan að stuðningsmenn Argentínu urðu smám saman steinrunnir þar sem þeir horfðu á hverja sóknina á fætur annarri fara forgörðum. Þeir fengu fáein mjög góð færi til að jafna en Mohammed Al-Owais var öryggið uppmálað í marki Sáda, sem börðust með kjafti og klóm við og í eigin vítateig, og uppskáru að lokum ótrúlegan sigur. Argentína er því komin í erfiða stöðu í C-riðli, fyrir leikina við Mexíkó og Pólland en þau lið mætast í dag klukkan 16. Argentínumenn byrjuðu einnig illa á HM fyrir fjórum árum, með 1-1 jafntefli við Ísland, og féllu þá úr keppni í 16-liða úrslitum.