Fótbolti

Fjölskylda Katie Meyer stefnir Stanford skólanum vegna dauða hennar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katie Meyer fagnar með félögum sínum þegar lið Stanford Cardinal varð bandarískur háskólameistari í fótbolta.
Katie Meyer fagnar með félögum sínum þegar lið Stanford Cardinal varð bandarískur háskólameistari í fótbolta. Getty/Jamie Schwaberow

Knattspyrnukonan Katie Meyer framdi sjálfsmorð síðasta vor og nú heldur fjölskylda hennar því fram að Stanford skólinn eigi mikla sök á því hvernig fór.

Foreldrar Katie hafa nú stefnt skólanum vegna þessa máls.

Meyer var aðeins 21 árs gömul þegar hún dó en hún hafði þá verið kölluð fyrir aganefnd skólans.

Ástæðan fyrir því var að Katie hafði helt kaffi yfir fótboltamann í skólanum sem var ásakaður um að nauðga liðsfélaga Katie í fótboltaliðinu. Faðir hennar segir að hún hafi þarna verið að koma liðsfélaga sínum til varnar.

Í ákærunni á hendur Stanford skólans kemur fram að Stanford hafði sent henni tölvupóst þar sem henni var meðal annars hótað brottrekstri úr skólanum og þar hafi verið talsvert um ógnandi orðalag.

Meyer talaði við foreldra sína og tvær systur á FaceTime sama kvöld og hún tók sitt eigið líf og þá lá vel á henni. Þau voru að skipuleggja hvað þau ætluðu að gera saman í vorfríinu.

Seinna þetta sama kvöld fékk Katie hins vegar sex blaðsíðna tölvupóst frá Stanford skólanum þar sem hún var boðuð á fund aganefndar skólans.

Daginn eftir fannst Karie látin í herbergi sínu og seinna var staðfest að hún hafði framið sjálfsmorð.

Meyer hjálpaði Stanford skólanum að verða bandarískur háskólameistari árið 2018 þegar hún varði tvær vítaspyrnur í vítakeppni í úrslitaleiknum. Hún ætlaði sér að fara í lögfræði í Stanford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×