Innlent

Dyra­verðir fóru mis­ró­legir inn í kvöldið

Árni Sæberg skrifar
Dyraverðir á Dönsku kránni voru pollrólegir þegar fréttastofa ræddi við þá í kvöld.
Dyraverðir á Dönsku kránni voru pollrólegir þegar fréttastofa ræddi við þá í kvöld. Stöð 2/Ívar F

Dyraverðir skemmtistaða í miðbæ Reykjavíkur hafa ekki farið varhluta af auknum viðbúnaði lögreglu í kvöld. Sumir þeirra eru pollrólegir yfir ástandinu á meðan það aðrir eru uggandi.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur verið með stóraukinn viðbúnað í miðbænum um helgina í kjölfar árásar sem framin var á skemmtistaðnum Bankastræti club í síðustu viku og ætlaðra hefndaraðgerða eftir hana.

Skilaboð hafa gengið manna á milli síðustu daga þar sem varað er við aukinni hættu á átökum í miðbænum um helgina og var fólki jafnvel ráðlagt að fara ekki út á lífið í kvöld.

Sunna Sæmundsdóttir skellti sér í bæinn í kvöld og tók meðal annars dyraverði tali:

Addi, sem hefur verið dyravörður í sextán ár og stóð í dyrunum á Dönsku kránni í kvöld, segir að dyraverðir þar hai ekki viðhaft aukinn viðbúnað í kvöld. „Þetta verður sennilega venjulegt kvöld,“ segir hann.

Hann segir ekki óþægilegt að standa vaktina í kvöld enda hafi hann mikla reynslu og staðan sé ekki ný af nálinni. Þó segir hann að hann hafi merkt breytingu á næturlífinu síðastliðin tíu ár.

Sumir fara í stunguvesti en aðrir ekki

Addi segir að ekki standi til að dyraverði á Dönsku kránni klæðist sérútbúnum varnarbúnaði á borð við stunguvesti eða sérstaka hanska.

Það gerir Hjörtur Már, dyravörður á Lebowski bar, hins vegar í kvöld. Hann segist hafa gert það áður en nú sé í fyrsta skipti sem hann gerir það af sérstakri ástæðu.

Hann segir stöðuna sem nú er komin upp vera mjög stressandi en að gott sé að vita af auknum viðbúnaði lögreglunnar um helgina. „Manni líður miklu betur með það,“ segir hann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×