Sport

„Erum á þeim stað að við verðum að ná í úrslit sama hvað“

Andri Már Eggertsson skrifar
Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka, var ánægður með sigurinn 
Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka, var ánægður með sigurinn  Vísir/Diego

Haukar komust aftur á sigurbraut eftir fjögurra marka sigur á ÍR 30-26. Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka, var jákvæður eftir leik.

„Við tókum tvö stig í kvöld. Ég er ánægður með það og ég var ánægður með mjög margt en annað sem ég var ekki eins ánægður með. Við erum á þeim stað að við verðum að fara ná í úrslit sama hvað og við gerðum það í kvöld,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson og hélt áfram að tala um það jákvæða hjá sínu liði.

„Við vorum að leiða leikinn allan tímann. Við vorum með frumkvæðið allan leikinn en þegar við erum nokkrum mörkum yfir þá vantaði að ná að keyra yfir þá og klára leikinn. Við gáfum alltaf eftir þegar við fengum tækifæri til að gera út um leikinn.“

Haukar fengu tækifæri að klára leikinn verandi fjórum mörkum yfir en þá gáfu heimamenn eftir sem Ásgeir var ekki ánægður með. 

„Við fórum að klikka á dauðafærum, vorum með ódýra tæknifeila og fórum frá því sem búið var að gerast. Við spiluðum einfalt í dag en allt í einu fórum við að flækja hlutina. Varnarlega duttum við niður þar sem við vorum að spila góða vörn í eina og hálfa mínútu en þá kom lélegt skot sem endaði alltaf inni og ég hefði viljað sjá okkur klára varnirnar betur.“

Ásgeir var ánægður með innkomu Matas Pranckevicius sem varði ellefu skot í leiknum.

„Matas kom inn á og tók nokkra góða bolta og mér fannst við einnig skynsamir fram á við og vorum með anda í að klára verkefnið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×