Lífið

Die Hard-stjarna látin

Atli Ísleifsson skrifar
Clarence Gilyard Jr. fór með hlutverk hins illa Theo í fyrstu Die Hard myndinni.
Clarence Gilyard Jr. fór með hlutverk hins illa Theo í fyrstu Die Hard myndinni. Skjáskot

Bandaríski leikarinn Clarence Gilyard Jr., sem þekktastur er fyrir hlutverk sitt í þáttunum Walker, Texas Ranger og Matlock og aukahlutverk sitt í stórmyndinni Die Hard, er látinn, 66 ára að aldri.

Þetta kemur fram í frétt Variety þar sem vísað er í yfirlýsingu frá Háskólanum í Nevada þar sem Gilyard Jr. starfaði.

Gilyard birtist fyrst á kvikmyndatjaldinu sem Sundown í Top Gun og vakti svo sérstaka athygli sem tölvufræðingurinn og hryðjuverkamaðurinn Theo í myndinni Die Hard frá árinu 1988.

Á árunum 1989 til 1993 fór hann með hlutverk spæjarans Conrad McMasters í 85 Matlock-þáttum. 

Hann tók þá við hlutverki Jimmy Trivette, samstarfsmanns persónu Chuck Norris í þáttunum Walker, Texas Ranger. Birtist hann í öllum þeim 196 þáttum af Walker, Texas Ranger sem framleiddir voru.

Í yfirlýsingunni frá Háskólanum í Nevada er ekkert gefið upp um orsök andláts Gilyard Jr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.