Viðskipti innlent

Ráðinn fram­kvæmda­stjóri rekstrar við HR

Atli Ísleifsson skrifar
Jón Haukur Arnarson.
Jón Haukur Arnarson. HR

Jón Haukur Arnarson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri rekstrar við Háskólann í Reykjavík. Hann hefur starfað hjá Matís síðustu ár.

Frá þessu segir í tilkynningu frá HR. Kemur þar fram að hann hefji störf í upphafi árs 2023. 

„Í verkahring rekstrarsviðs HR eru upplýsingatækni, fasteignir, Opni háskólinn í HR, fjölbreytt nemendaþjónusta og ýmis stoðþjónusta fyrir bæði nemendur og starfsfólk.

Framkvæmdastjóri rekstrar situr í framkvæmdaráði HR, ásamt sviðsforsetum, deildarforsetum, fjármálastjóra, mannauðsstjóra, formönnum náms- og rannsóknaráða, formanni Stúdentafélags HR og rektor háskólans.

Jón Haukur hefur undanfarin sjö ár verið sviðsstjóri rekstrarsviðs hjá Matís ohf. Árin 2008 til 2015 var hann rekstrarstjóri, mannauðsstjóri og verkefnastjóri hjá Matís. Áður var hann meðal annars yfirmaður rannsóknarstofu hjá Hilton Meats Retail Ltd. í Bretlandi, gæðastjóri hjá Coors Brewing Company í Colorado og sérfræðingur í bókhaldi hjá lífeyrisdeild Kaupþings.

Hann var stjórnarmaður hjá Marinox ehf. 2013-2015 sem sérhæfir sig í framleiðslu lífvirkra efna úr þangi og hefur verið stjórnarmaður síðan 2015 hjá UNA skincare sem vinnur að framleiðslu snyrtivara með lífvirkum innihaldsefnum úr þangi.

Jón Haukur lauk BSc-gráðu í matvælafræði frá Háskóla Íslands árið 2000 og meistaragráðu í viðskiptafræði með áherslu á rekstrar- og gæðastjórnun frá HÍ og Colorado University at Boulder árið 2004. Hann lauk GMP-stjórnendaþjálfun við Harvard Business School árið 2015,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×