Skoðun

Hundrað tonna hamingjusprengja

Birna Guðný Björnsdóttir skrifar

Sæl aftur. Æsispennandi leit mín að hamingjunni heldur áfram, sjá má fyrri grein um leit mína í tengli hér að neðan.

Ég ákvað að fara mjög markvissa leið í leit minni að tilgangi lífsins og hamingjunni. Ég ákvað að huga vel að líkama, hug og sál. Mig grunaði alltaf að hamingja mín yrði ekki eingöngu staðsett innan kassans, í fyrirfram skilgreiningum annarra á því hvar hamingjuna mætti finna. Þó að það sé nú mjög skiljanlegt að staðsetja sig þar, því það felst ákveðið öryggi í því að gera ekkert öðruvísi. Ég ákvað að láta það þó ekki binda mig, vera hugrökk og leyfa mér að svífa utan kassans, skoðandi allar mögulegar leiðir sem myndu koma í mína átt.

Það verður að segjast að síðasta ár hefur verið svo stórfenglegt. Þegar ég segi að ég hef leyft mér að prófa allt þá er ég ekkert að djóka. Ég hef hreinlega labbað um eins og heilla veran hann Jack í jólalandi, sönglandi: What´s this, what´s this, there is something in the air, what´s this, what´s this there is music everywhere.

Ég viðurkenni það fúslega að ég hef gengið svo langt að halda til steinahrúgu í brjóstahaldaranum sem á að færa mér vernd og farsæld. Ég vara ykkur þó við, því það fylgir því sá ókostur að þegar maður frelsar júllurnar þá hrynja blessaðir steinarnir niður á gólf og dreifast í allar áttir. Ég hef þá þurft að gjöra svo vel að koma mér í stellingar, leggjast niður á gólf, sveiflandi stuttum handleggjum mínum í allar áttir til að reyna að ná þessum kvikindum sem náðu því takmarki að komast undir rúmið. Þá er sko ekki gaman að uppgötva, jæja Birna, þú mátt nú vera aðeins duglegri að beita skúringagræjunum undir rúminu.

Það má segja að ást mín á tónlist hafi leitt mig áfram í för minni. Ég setti það til hliðar að hlusta á Suður-ameríska danstónlist og drauminn um að komast á sjóðheitt tangó-námskeið og fór að hlusta á alls konar fallega hugleiðslutónlist. Youtube er auðvitað með urmul af alls konar spennandi efni og fljótlega var ég farin að fá alls konar uppástungur sem ég hafði ekki séð áður.

Og ég gleypti í mig efnið. Ég dáleiddist af viskuorðum yoda-kallsins Eckhart Tolle og sökkti mér í alls konar mismunandi fræði frá sjálfshjálpar boðberum, gúrú-um og predikurum. Ég forvitnaðist um forna menningarheima og ég heillaðist af trúarbrögðum fyrri tíma.

Ég leitaði svara um tilgang lífsins í gegnum kirkjuna og uppgötvaði mér til ánægju að þeir birta nýjar hugleiðslur í hverri viku inn á kirkjan.is. Ánægja mín var áþreifanleg, því ég hafði verið að pæla að drattast í eina sunnudagsmessu til að fá efnið beint í æð, en það var allt pínku fráhrindandi þar sem fitan mín er smá þrjósk og vill bara alls ekki mynda lögulegan Kardashian kodda rass til að hlífa mér við setu á hörðum timburbekkjum.

Ég lét mér kirkjuna ekki nægja því ég er leitandi sál. Ég fór á bænahringi, miðilsnámskeið, heilunarnámskeið og fyrri lífs dáleiðslu og uppgötvaði að ég hef smá hæfileika. Kannski ekki mikla en alveg nóg til að vita að efasemdaraddir eru blindar raddir og alveg nóg til að geta dáðst af þeim sem hafa verulega hæfileika. Og þar komst ég líka að mikilvægari lexíu. Ef maður vill uppgötva þessa hæfileika og þjálfa þá upp þá verður maður að leyfa sér að trúa og treysta.

Í gegnum þetta allt þá stundaði ég hugleiðslu ötullega líkt og um trúabrögð væri um að ræða. Ég vann með það að koma jafnvægi á 7 orkustöðvar í líkamanum og var bara frekar ánægð og montin með þá vinnu. Komst svo að því að ég er smá græn, því orkustöðvarnar eru aðeins fleiri, eða heilar 114 talsins.

Hér er svo smá leyndarmál sem ég veit ekki hvernig hefur duldist mér í allan þennan tíma. Vitið þið að ef maður nær að takast á við 84 orkustöðvar þá mun eitthvað breytast í líkamanum og maður fær ofurkrafta. Jahá, nú sem sagt vitum við hvaðan Marvel fékk sínar hugmyndir. Þeir stálu Þór frá okkur en dna stökkbreytingum frá orkustöðva hugleiðslu. Hversu mörg trúarbrögð eru svona spennandi? Trúabragðalega séð þá veit ég alveg hvert ég stefni núna. Mynd af Molly Weasley er nú komin upp á ísskápinn minn. Nú skal þetta gerast. Ég ætla að geta setið í sófanum á meðan kústurinn sópar gólfin, sleifin hrærir pottinn og tuskan svífur sveiflandi í allar áttir.

Hugleiðsla er algjörlega málið og jógað verður bara að fylgja með. Það þýðir ekkert lengur að detta svona niður á bossann eftir að hafa náð aðeins að standa í 20 sekúndur í furðulegri stellingu.

Og þá er ég loksins kominn á þann stað sem ég var búin að lofa ykkur að sjá með fyrri grein minni um hamingjuleitina.

Í öllum þessum hugleiðslutilraunum mínum þá hef ég ekki bara einbeitt mér að orkustöðvunum. Það eru bara svo margar fallegar leiðbeinandi hugleiðslur til inn á youtube, að ég hef ekki haft undan við að prófa. Því í alvörunni, maður verður að prófa, maður verður að prófa...

Og það var með hlustun á einni af þessum hugleiðslum að hjartað mitt opnaðist upp á gátt og 100 tonna hamingjusprengja sprakk í hjartanu. Ég bara lá þarna upp í rúmi með opin augun, klukkutímum saman, í sæluvímu, og gat ekki sofnað. Og nei, hjálpartæki ástarlífsins komu þar hvergi við sögu, heldur hugleiðsla strákar, hugleiðsla.

Ég rakst sem sagt á hugleiðslu sem mér þótti frekar falleg, en smá skrítin. Það er mjög skýrt augnablikið í huga mér þegar ég sagði við sjálfa mig, heyrðu Birna, nú ætlar þú bara trúa þessu og gera þetta af fullu hjarta. Svo ég settist niður og hlustaði á hugleiðslu um fjólubláa logann hans Saint Germain, sem fékk mig til að fá léttan nálardofa út um allan líkamann, sem breytir allri neikvæðni í falleg ljós, eyðir út öllum stíflum í orkustöðvum og sem hvetur mig til að biðja fyrir sjálfri mér, fjölskyldu, fólki í kringum mig, Íslendingum og um frið í Úkraínu. Já og sem biður mig um að elska, og elska og elska. Og búmm, 100 tonna hamingjusprengja, værsgo.

Ooooooog nú hættu allir karlkynslesendur að lesa.

Eigum við ekki að reyna að ná þeim aftur með því að ræða smá um vísindi?

Því ég varð mjög forvitin um hvað í ósköpunum ég hafði verið að upplifa. Fyrst þá er það þekkt að hugleiðsla getur kallað fram aukið magn af hormónum, þ.e. af oxytocin, serotonin, DHEA, GABA, endorphins, melatonin, dopamine. Og ég held svei mér þá að ég hafi náð að framleiða stórkostlegan kokteil af gleðihormónum með hugleiðslu minni.

Svo er það annað sem er mikilvægara, ég uppgötvaði að það eru 40 þúsund frumur inn í hjartanu sem tengjast saman í tauganeti. Allar þessar frumur hafa sjálfstætt minni eða kannski er það réttara að segja að minnið helst til staðar innan tauganetsins. Það þýðir að þegar einstaklingar upplifa áföll og sorgir, þá meðtekur heilinn minninguna, en það gerir hjartað líka.

Sem sagt, þegar þú sem einstaklingur ert að takast á við áföll og sorgir, þá er það ekki nægilegt að greina aðstæður i gegnum sálfræðina. Þú verður að heila hjartað líka til að líða betur.

Auðvitað er sálfræðin mikilvæg. Hún gefur aukin skilning og getur leitt þig til að fyrirgefa sjálfum þér, hvort sem það er fyrir þínar eigin gjörðir eða fyrir það að upplifa vanmátt í erfiðum aðstæðum sem þú áttir erfitt með að komast undan. Og það er fyrirgefningin sem er svo mikilvæg því hún leiðir til sjálfsástar.

Það er svo dásamlega ástin sem tekur við, og ýtir við framleiðslu á hormóninu oxytocin. Læknisfræðin er að uppgötva jákvæða eiginleika oxytocin þegar kemur að heilun hjartans eftir hjartaáföll. Ef kraftaverkið oxytocin getur læknað skemmdir í hjartanu vegna hjartaáfalls, af hverju ætti það ekki líka að geta læknað hjartasár vegna áfalla og sorga?

Er þetta sem sagt lífsperla? Ef þú vilt hafa sterk og gott hjarta þá má ekki gleyma mikilvægi þess að elska.

Kannski eftir allt saman, var þessi mikla þörf hjá mér við að upplifa hamingjusprengju, leið líkamans til að segja mér að ég þyrfti að heila hjartað mitt. Að ég þyrfti að takast á fullu við þau áföll og sorgir sem hafa orðið á mínum vegi. Eitt er víst, ég þakka trúnni og fallega loganum hans Saint Germain fyrir að minna mig á það, að það er í lagi að elska að fullu hjarta, því það er eitthvað sem fyrst og fremst heilar sjálfa mig.

Takk fyrir mig og munið að njóta þess að elska.

Og svo langar mig svo mikið til að enda á þessu yndislega lagi:

Sur le Pont des Arts

Mon cœur vacille

Entre deux eaux

L'air est si bon



Cet air si pur

Je le respire

Nos reflets perchés

Sur ce pont



On s'aime comme ça la seine et moi




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×