Erlent

Sagði að siðgæðislögreglan væri úr myndinni

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá mótmælum stuðningsmanna klerastjórnarinnar gegn mótmælaöldunni í landinu.
Frá mótmælum stuðningsmanna klerastjórnarinnar gegn mótmælaöldunni í landinu. Vísir/EPA

Ríkissaksóknari í Íran segir að siðgæðislögreglan þar í landi hafi verið tekin úr umferð. Mótmæli hafa geisað nær linnulaust í landinu frá því að ung kona lést í haldi siðgæðislögreglunnar.

Ríkisfjölmiðlar í Íran höfðu eftir Mohammad Jafar Montazeri, ríkissaksóknara, að aðgerðum siðgæðislögreglu væri nú lokið. Stjórnvöld væru einnig að endurskoða reglur um höfuðslæður sem konum er skylt að ganga með. Ummælin hafi hann látið falla á viðburði yfirvalda um mótmælin í gær. Þau voru þó nokkuð óljós.

Katarska fréttastofan al-Jazeera segir að engin frekari staðfesting hafi fengist á því að siðgæðislögreglan sé ekki lengur starfandi. Það liggi heldur ekki fyrir hvort að hún hafi verið lögð varanlega niður. Ekkert bendi heldur til þess að lög sem kveða á um að konu verði að ganga með höfuðslæðu verði felld úr gildi.

New York Times segir ekki ljóst hvaða áhrif breytingarnar sem Montazeri boðaði hefðu á framfylgd laga um klæðaburð kvenna. Á viðburðinum sagði hann að dómsmálayfirvöld ætluðu áfram að framfylgja lögum um hegðun borgaranna.

Mótmælaaldan í Íran hófst eftir dauða Möhsu Amini, 22 ára gamallar konu af kúrdískum uppruna, sem siðgæðislögreglan stöðvaði í Teheran. Amini á að hafa brotið reglur um klæðaburð kvenna. Yfirvöld héldu því fram að Amini hefði látist af völdum veikinda en fjölskylda hennar fullyrti að hún hefði verið barin til dauða.

Konur hafa verið fremstar í flokki mótmælenda. Þær hafa brennt höfuðklúta og slagorðið „Kona, líf, frelsi“. Sumir mótmælendur hafa jafnvel hrópað slagorð um dauða Khamenei, æðsta leiðtoga Írans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×