Þetta kemur fram í bréfi innviðaráðuneytisins til Ragnars Sigurðssonar, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Bréfið var tekið fyrir á fundi bæjarstjórnar í gær.
Innviðaráðuneytið sendi sveitarstjórn Fjarðabyggðar erindi í upphafi septembermánaðar þar sem óskað var eftir umsögn sveitarfélagsins vegna ráðningar Jóns Björn í embætti sveitarstjóra í sumar.
Ráðuneytið sagði í bréfinu í september að það væri álitamál hvort að kjörnum fulltrúum, væri heimilt að taka til máls á bæjarstjórnarfundi og greiða atkvæði með ráðningarsamningi sem viðkomandi á sjálfur aðild að.
Í bréfi innviðaráðuneytisins til Ragnars segir að að teknu tilliti skýringu við frumvarpi sem síðar varð að sveitarstjórnarlögum og í ljósi röksemda frá umboðsmanni Alþingis í öðru máli, sé það afstaða ráðuneytisins að Jón Björn hafi ekki verið vanhæfur til að taka þátt í meðferð og afgreiðslu máls sem laut að ráðningu og kjörum framkvæmdastjóra Fjarðabyggðar, jafnvel þótt sú ráðning hafi varðað hann persónulega og fjárhagslega hagsmuni hans.
Jón Björn leiddi lista Framsóknar í kosningunum í maí og kjörinn var í sveitarstjórn. Hann var endurráðinn bæjarstjóri eftir að fulltrúar Framsóknar og Fjarðalistans höfðu náð samkomulagi um meirihlutamyndun.
![](https://www.visir.is/i/D86D9069ACB4A0E5DF4695DA36666A2F422E196FC997A3064D44190DDCE43653_713x0.jpg)
Ekki vísbendingar um að málið stangist á við lög
Í bréfinu segir að ekki séu uppi vísbendingar um að ákvörðun bæjarstjórnar Fjarðabyggðar um ráðningu og ráðningarsamning framkvæmdastjóra sveitarfélagsins stangist á við lög eða samþykkt um stjórn Fjarðabyggðar og fundarsköp bæjarstjórna.
Því sé ekki tilefni til að taka lagaleg álitaefni þess til frekari umfjöllunar að öðru leyti en hér hefur verið gert „Er máli þessu því lokið af hálfu innviðaráðuneytisins,“ segir í bréfinu.
Upphaflega var sagt frá málinu í fundargerð bæjarstjórnar Fjarðarbyggðarí september. Í fundargerð lýstu fulltrúar Fjarðalistans og Framsóknar yfir undrun sinni á erindi ráðuneytisins sem byggi á nafnlausri ábendingu. Svarbréf ráðuneytisins nú er stílað á Ragnar Sigurðsson, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks.