Tómas starfar sem leiðsögumaður hjá BusTravel Iceland og var staddur á svæðinu ásamt hópi ferðamanna fyrr í dag. Smellti hann meðfylgjandi ljósmyndum af atvikinu.
„Ég var semsagt með hópnum mínum þarna megin og svo var ein sem gleymdi að mæta þannig að ég fór með restina af hópnum niður í Fellsfjöru og fór svo til baka til að leita að konunni. Það var þá sem ég sá þetta gerast,“ segir Tómas í samtali við Vísi.

Hann segist hafa heyrt skarkala fyrir aftan sig og þegar hann sneri sér við sá hann ferðamanninn, unga stúlku, þar sem hún hékk hálf út úr bifreiðinni sem mallaði hægt og rólega í átt að lóninu.
„Það sem ég held að hafi gerst er að hún hafi teygt sig inn í bílinn og ætlað að setja hann í gang en ekki áttað sig á að bílinn var í gír, og síðan hefur hún startað honum í gang. Bíllinn fer í gang og mallar áfram og hún hangir þarna einhvern veginn hálf í bílnum. Ég hendi frá mér símanum og hleyp af stað og er svona hálfnaður kominn að henni þegar hún nær að losa sig.“
Tómas segist þá hafa reynt að bjarga bílnum en það hafi ekki borið árangur. „Svo trítlaði bíllinn hægt og rólega út í vatn. Bílinn var sem sagt í gangi á meðan þetta gerðist. Ég fór út í bílinn og ætlaði að sjá hvort ég gæti bakkað honum út en gat það ekki þannig að ég drap bara á honum.“
Stúlkunni varð þó ekki meint af þessu óhappi.
„Fólk var þarna farið að stumra yfir henni og það var í sjálfu sér lítið meira sem ég gat gert. Núna sit ég bara og horfi á skóna mína þorna hægt og rólega við miðstöðvarmótorinn.“