Fótbolti

Mourinho gæti mætt á Laugardalsvöll í sumar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
José Mourinho hefur áhuga á að taka við landsliði Portúgals.
José Mourinho hefur áhuga á að taka við landsliði Portúgals. getty/Hiroki Watanabe

Svo gæti farið að José Mourinho myndi taka við portúgalska landsliðinu af Fernando Santos sem mun líklega hætta sem þjálfari þess.

Þátttöku Portúgals á HM í Katar lauk á laugardaginn þegar liðið tapaði óvænt fyrir Marokkó, 1-0. Líklegt þykir að þetta hafi verið síðasti leikur Santos við stjórnvölinn hjá portúgalska landsliðinu. Hann tók við því af Paolo Bento eftir HM 2014. Undir stjórn Santos urðu Portúgalir Evrópumeistarar 2016 og unnu Þjóðadeildina 2019.

Líklegasti eftirmaður Santos er Mourinho. Hann er einn sigursælasti þjálfari fótboltasögunnar og er núna þjálfari Roma á Ítalíu.

Samkvæmt Corriere dello Sport hefur Mourinho áhuga á landsliðsþjálfarastarfinu hjá heimaþjóð sinni og gæti sinnt því meðfram því að þjálfa Roma.

Portúgal er með Íslandi í riðli í undankeppni EM 2024. Fyrri leikur liðanna fer fram á Laugardalsvelli 20. júní á næsta ári en sá síðari í Portúgal 19. nóvember. Auk Íslands og Portúgals eru Lichtenstein, Lúxemborg, Bosnaía og Slóvakía í riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×