„Þetta byrjaði um daginn þegar Britney átti afmæli. Þá var Sam, maðurinn hennar, með eitthvað svaka reel á Instagram þar sem hann var að undirbúa afmælið hennar og hann var eitthvað pínu off, ef maður horfir á þetta þá er eitthvað skrítið,“ segir Birta Líf.
„Svo fer hann og lætur hana hafa gjafirnar hennar uppi í rúmi og hún er veik þannig það sést ekki í hana. Svo allt í einu eru þau á leiðinni út að borða á Nobu og hún er svona í bakgrunni og það er eins og þetta sé ekkert Britney, en hann heldur því fram að þetta sé hún.“
Líkaminn, röddin og tennurnar öðruvísi en venjulega
„Svo ef þið kafið djúpt í þetta þá er hægt að sjá myndir á Instagram, hjá honum sérstaklega, þar sem hann er kannski haldandi á henni inni í ræktinni og þetta lítur ekkert út eins og Britney.“
Hér að neðan má sjá umrædda mynd. Samsærissinni á TikTok tekur undir orð Birtu og vísar meðal annars til þess að líkami konunnar á myndinni sé gjörólíkur líkama Britney.
Þá eru önnur atriði sem aðdáendur hafa komið auga á, eins og fæðingarblettir, húðflúr og skarð á milli framtannanna, sem vekja grunsemdir. Þá hefur söngkonan ekki sést á almannafæri í langan tíma.
Sam, eiginmaður Britney, var í beinni útsendingu á Instagram síðu sinni um daginn og var Britney við hlið hans á meðan. Í myndbandinu spjallaði Sam við eiginkonu sína en það sást þó aldrei í andlit hennar. Þá þótti röddin á myndbandinu jafnframt gjörólík rödd Britney.
„Þetta er alveg klikkuð kenning en þetta er áhugavert,“ segir Birta Líf.
Instagram reikningnum lokað
Athugasemdakerfi á Instagram síðu söngkonunnar er fullt af áhyggjufullum aðdáendum sem trúa því ekki að það sé hin raunverulega Birtney sem hefur birtst á samfélagsmiðlum síðustu vikur. Efni hennar á samfélagsmiðlum hefur lengi vakið athygli en hennar nýjasta efni þykir enn sérkennilegra. Þá hafa verið stofnuð myllumerki á borð við #FreeBritney2022 og #WhereIsBritney.
Eftir að athugasemdakerfið fylltist af samsæriskenningum var Instagram reikningi söngkonunnar lokað. Hann hefur þó verið opnaður aftur.
Perez Hilton hefur áhyggjur
Slúðurkóngurinn Perez Hilton deildi myndbandi á TikTok fyrir tveimur dögum þar sem hann sagði fólki að láta Britney í friði í eitt skipti fyrir öll og hætta með þessar samsæriskenningar.
Í morgun birti Hilton svo nýtt myndband þar sem honum virtist hafa snúist hugur. „Núna er Britney Spears farin að valda mér áhyggjum,“ sagði hann.
Britney deildi myndbandi af sér í einkaþotu þar sem hún sagðist vera á leiðinni til New York. „Ef Britney fer til New York og sést ekki á almannafæri af ljósmyndurum eða aðdáendum, þá verð ég virkilega áhyggjufullur, “ sagði Hilton.
Hér að neðan má hlusta á Brennslute vikunnar í heild sinni. Þar ræðir Birta Líf meðal annars um nýja þætti Harry Bretaprins og Meghan Markle.