Veður

Frost að fimm­tán stigum í dag og kulda­tíðin helst út næstu viku

Atli Ísleifsson skrifar
Spáð er að frost gæti farið í tuttugu stig á morgun, líklegast í innsveitum norðaustanlands.
Spáð er að frost gæti farið í tuttugu stig á morgun, líklegast í innsveitum norðaustanlands. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan spáir norðlægri átt í dag, fimm til þrettán metra á sekúndu. Má reikna með frosti þrjú til fimmtán stig og jafnvel enn kaldara á stöku stað.

Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar. Þar segir að búast megi við éljum á Norður- og Austurlandi og einnig syðst á landinu. Úrkomulaust og bjart veður sé í vændum á Suðvesturlandi ef að líkum lætur.

„Á morgun er síðan útlit fyrir breytilega átt 3-10 með þurru og björtu veðri nokkuð víða, en sums staðar lítilsháttar él við ströndina. Það herðir heldur á frostinu á morgun og gæti það á stöku stað orðið meira en 20 stig og líklegast er að það gerist í innvseitum norðaustanlands.

Sé litið á spár lengra fram í tímann, þá virðist kuldatíðin ætla að haldast áfram út næstu viku. Hæð yfir Grænlandi er þaulsetin og á hún stærstan þátt í að beina til okkar köldu heimskautalofti úr norðri.“

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag: Breytileg átt 3-10 m/s með þurru og björtu veðri, en sums staðar lítilsháttar él við ströndina. Frost 5 til 20 stig, kaldast í innsveitum norðaustanlands.

Á laugardag: Austan og norðaustan 5-13 og víða bjartviðri, en dálítil él með austur- og suðurströndinni og á annesjun nyrst. Frost 4 til 15 stig.

Á sunnudag og mánudag: Norðaustan 8-15 m/s og svolítil él norðan- og austanlands, en léttskýjað sunnan heiða. Áfram kalt í veðri.

Á þriðjudag og miðvikudag (vetrarsólstöður): Allhvöss eða hvöss norðanátt með éljagangi, en bjartviðri um landið sunnanvert. Talsvert frost.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×