Erlent

Þúsundir skjala um morðið á Kenne­dy birt

Atli Ísleifsson skrifar
John F. kennedy í bílnum ásamt eiginkonu sinni, Jackie Kennedy, í Dallas skömmu áður en hann var skotinn til bana.
John F. kennedy í bílnum ásamt eiginkonu sinni, Jackie Kennedy, í Dallas skömmu áður en hann var skotinn til bana. Getty

Bandaríkjastjórn hefur fyrirskipað að þúsundir skjala um morðið á John F. Kennedy, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, sem hingað til hafi verið óaðgengileg almenningi, skuli birt.

Erlendir fjölmiðlar greina frá því að rúmlega 13 þúsund trúnaðarskjöl skuli nú birt á netinu og því verði nú um 97 prósent opinberra gagna um morðið aðgengileg almenningi.

Ekki er búist við að mikið nýtt sé að finna um morðið, en sagnfræðingar eru sagðir vongóðir um að geta fræðst meira um meintan banamann forsetans. Kennedy var myrtur í heimsókn sinni til Dallas í Texas þann 22. nóvember 1963.

Lög sem samþykkt voru árið 1992 kváðu á um að stjórnvöld skyldu birta öll gögn um morðið fyrir október 2017. Joe Biden Bandaríkjaforseti ritaði í gær undir forsetatilskipun sem kveður á um birtingu gagnanna nú. Biden sagði þó að hluti gagnanna yrði bundinn trúnaði til júní 2023 til að koma í veg fyrir að birtingin valdi skaða.

Talsmaður Þjóðskjalasafns Bandaríkjanna segir að 515 skjöl myndu áfram verða brunin trúnaði og að á þriðja þúsund skjala bundin trúnaði að hluta.

Sérstök rannsóknarnefnd komst að þeirri niðurstöðu að Lee Harvey Oswald, bandarískur ríkisborgari sem hafði áður verið búsettur í Sovétríkjunum, hafi verið banamaður Kennedy. Oswald var myrtur á lögreglustöð í Dallas, tveimur dögum eftir að hafa verið handtekinn.

Miklar samsæriskenningar og umræður hafa verið um morðið á Kennedy, þar sem margir vilja meina að sannleikurinn um morðið sé enn ekki að fullu ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×