Aflýst er orð dagsins á Keflavíkurflugvelli þar sem líklega á annað þúsund manns hafast nú við og bíða upplýsinga. Veðrið hefur sett strik í reikninginn. Fjöldi fólks var kominn út á flugvöll þegar flugferðum var aflýst. Reykjanesbrautin er lokuð.

Hallfríður vaknaði klukkan hálf sex í morgun og skoðaði vef Isavia. Flug var á áætlun. Hún kom sér niður á Umferðarmiðstöð BSÍ og tók rútuna klukkan hálf sjö. Sú lagði af stað um hálftíma síðar.
„Við vorum svona klukkutíma að álverinu í Straumsvík. Svo biðum við og biðum eftir því að fá að fara á eftir plógi,“ segir Hallfríður.
Ferðin sóttist hægt en Hallfríði blöskraði þegar hún sá ýmsa taka fram úr plógnum.
Brunuðu fram úr en beint í skafl
„Það fóru nokkrir gæjar fram úr plógnum, brunuðu bara fram úr,“ segir Hallfríður. Þeir hafi hins vegar lent í skafli og tafið fyrir öllum.
„Þeir sátu þarna pikkfastir svo við urðum aðeins stopp þar. Það þarf dráttarbíla til að færa þá úr skaflinum.“
Þegar komið var út á Keflavíkurflugvöll mat Hallfríður bestan kostinn að fólk héldi kyrru fyrir í rútunni. Ekki hafi allir í rútunni verið sannfærðir um þá ákvörðun en nú þakki fólk fyrir.
„Það er ískalt inni í flugstöðvarbyggingunni. Við erum heppin að vera úti í rútu.“

Alls konar fólk er í rútunni. Íslendingar og útlendingar. Allt niður í eins árs börn og upp í eldri borgara sem séu slappir til heilsunar.
„Við fáum engar fréttir einu né neinu. Hvers konar þjónusta er þetta eiginlega? Ég hélt að Ísland væri þróaðra en þetta,“ segir Hallfríður.
Hún er ekki alveg viss hvern drag eigi til ábyrgðar en nefnir Isavia, sem stýrir Keflavíkurflugvelli, og Icelandair sem dæmi. Hvorki lögregla né björgunarsveitir hafi heldur rætt við fólkið í rútunni.
„Við fáum engar upplýsingar og hvorki vott né þurrt. Þetta er í einu orði sagt ömurlegt.“

Hallfríður starfar hjá Kynnisferðum og ákvað að setjast í leiðsögumannasætið í rútunni og hjálpa til. Fólk spyrji hana spurninga sem hún geti ekki svarað. Þau sitja bara sem fastast í rútunni.
„Ég var á leiðini í sól en settist bara í gædasætið svo það væri hægt að fylla rútuna. Svo reyni ég að halda uppi einhverjum móral.“
Í símtali blaðamanns við Hallfríði mátti heyra í börnum sem eru eðli máls samkvæmt orðin óþolinmóð. Hallfríður segir börnin ótrúlega þolinmóð miðað við aðstæður.

Guðni Sigurðsson, samskiptastjóri hjá Icelandair, tjáði Vísi fyrir stundu að langflestir á Keflavíkurflugvelli hafi tekið stöðunni með jafnaðargeði þótt fólk sé ekki alltaf sátt við aðstæður sem þessar þar sem lítið sé um upplýsingar.
Ástandið væri sérstaklega erfitt þegar fólkið var fast á innritunarsvæði flugstöðvarinnar en það hafi batnað eftir að opnað var upp á verslunarsvæðið. Hann segir að allt starfsfólk á flugvellinum vinni nú hörðum höndum að því að liðsinna fólki.
„Það eru allir í þessu saman í flugstöðinni,“ segir hann.



