Lokun Reykjanesbrautarinnar vegna veðurs í rúman sólarhring hefur verið gagnrýnd nokkuð. Nú hefur verið ákveðið að stofna sérstakan samráðshóp til að fara yfir lokunina en á meðal þeirra sem eiga sæti í þeim hópi eru fulltrúar innviðaráðuneytisins, Ríkislögreglustjóra, Lögreglustjórans á Suðurnesjum og Vegagerðarinnar.
G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir erfitt að staðhæfa hvort hægt hefði verið að stytta lokunartímann.
„Við reyndum að opna á mánudagskvöldið og eftir klukkustund þá voru bílar farnir að festast og blindan stöðvaði umferðina þannig við urðum að loka aftur. Sem að sýnir nú ástandið og að við erum ekki að loka þessu í einhverju tómarúmi eða bara til þess að loka.“
Þá segir hann mögulega hægt að skoða það að hleypa stærri bílum á brautina þegar veður er slæmt eða hafa fylgd.
„Við fylgdum rútum frá Leifsstöð til Reykjavíkur og til baka aftur til þess að ná í fleiri farþega. Þannig að það er bara eitthvað verklag sem við þurfum að skoða til framtíðar ef svona aðstæður, sem ég á nú ekki von á að gerist oft, verða.“
Hann segir Vegagerðina telja að það hafi verið rétt ákvörðun að loka Reykjanesbrautinni í þann tíma sem hún var lokuð.
„Það sýndi sig hvað gerðist þegar við opnuðum, rúta sem fýkur út af, að ástandið var þannig að við hefðum ekki getað farið að hleypa mörg hundruð manns á Reykjanesbrautina fyrr en við gerðum.“