Nánast allt svæðið í kringum flugstöðina á Keflavíkurflugvelli var snævi þakið eftir óveðrið fyrr í vikunni. Um tíma var ekki hægt að keyra upp að flugstöðinni vegna snjós og veðurs og var því flest öllum flugferðum aflýst.
Verktakar á vegum Isavia hafa í dag og í gær verið á fullu við að koma snjónum í burtu svo hægt sé að aka að flugstöðinni. Þó eru nokkur verkefni eftir, líkt að tæma gönguskýlið sem sjá má á myndinni hér fyrir ofan.
„Þetta er skýli sem gengur frá langtímabílastæðunum okkar upp að ákveðnum hluta flugstöðvarinnar. Það hefur skafið inn í skýlið síðustu daga og ég fékk það staðfest að það er á dagskrá hjá þeim verktökum sem eru að vinna fyrir okkur í að ryðja snjó í kringum flugstöðina að fjarlægja þennan snjó annað hvort í nótt eða snemma á morgun,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við fréttastofu.
Hann segir það hafa verið ærið verk fyrir verktakana að fjarlægja snjóinn, sérstaklega í kringum bílastæðin.
„Það verk hefur verið unnið ötullega bæði í gær og í dag. Það sem er búið að vera að gera er að ryðja, moka og síðan fjarlægja snjóinn af svæðinu til að losa um,“ segir Guðjón.