Innlent

Tíu nýir fram­kvæmda­stjórar ráðnir á Land­spítala

Atli Ísleifsson skrifar
Runólfur Pálsson er forstjóri Landspítalans.
Runólfur Pálsson er forstjóri Landspítalans. Vísir/Arnar

Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, hefur tekið ákvörðun um val á framkvæmdastjórum í nýja framkvæmdastjórn spítalans. Alls bárust 41 umsókn um tíu störf framkvæmdastjóra. Þrír umsækjendur drógu umsókn sína til baka.

Frá þessu segir á vef Landspítala. Þar segir að umsóknarferlið hafi farið þannig fram að innsend umsóknargögn hafi verið metin og út frá þeim hafi tveir til fimm einstaklingar verið boðaðir í viðtal fyrir hvert starf. 

„Að því mati loknu var tekin ákvörðun um að óska eftir frekari kynningu á framtíðarsýn og áformum fyrstu 100 dagana í starfi frá umsækjendum um nokkur starfanna. Loks var haft samband við umsagnaraðila og að því búnu var heildstætt mat lagt á hæfni umsækjenda um hvert starf.

Reynt var að hraða ferli ráðninga eins og mögulegt var án þess að það kæmi niður á gæðum ferlisins. Ekki hefur reynst unnt að ganga frá ráðningu í stöðu framkvæmdastjóra skurðlækningaþjónustu og skurðstofu og gjörgæsluþjónustu. Í ljósi þess hefur sú ákvörðun verið tekin að fela reyndum aðila innan sviðsins starf framkvæmdastjóra tímabundið.“

Már Kristjánsson verður framkvæmdastjóri lyflækninga- og bráðaþjónustu.Vísir/Vilhelm

Framkvæmdastjórn Landspítala verður skipuð eftirtöldum aðilum frá og með 1. janúar 2023.

  • Runólfur Pálsson, forstjóri

Framkvæmdastjórar klínískra sviða:

  • Már Kristjánsson, framkvæmdastjóri lyflækninga- og bráðaþjónustu
  • Vigdís Hallgrímsdóttir, framkvæmdastjóri hjarta- og æðaþjónustu og krabbameinsþjónustu
  • Kári Hreinsson, framkvæmdastjóri skurðlækningaþjónustu og skurðstofu- og gjörgæsluþjónustu (ráðinn tímabundið)
  • Dögg Hauksdóttir, framkvæmdastjóri kvenna- og barnaþjónustu
  • Guðný Valgeirsdóttir, framkvæmdastjóri öldrunar- og endurhæfingarþjónustu
  • Nanna Briem, framkvæmdastjóri geðþjónustu
  • Björn Rúnar Lúðvíksson, framkvæmdastjóri klínískrar rannsóknar- og stoðþjónustu
Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir ónæmisfræðideildar og þróunarsviðs, verður framkvæmdastjóri klínískrar rannsóknar- og stoðþjónustu.Vísir/Arnar

Framkvæmdastjórar stoðsviða:

  • Svava María Atladóttir, framkvæmdastjóri þróunar
  • Gunnar Ágúst Beinteinsson, framkvæmdastjóri rekstrar og mannauðs
  • Tómas Þór Ágústsson, framkvæmdastjóri lækninga (ráðinn tímabundið vegna fjarveru Ólafs Baldurssonar)
  • Ólafur G. Skúlason, framkvæmdastjóri hjúkrunar

Loks hefur Þórunn Oddný Steinsdóttir verið ráðin í starf skrifstofustjóra á skrifstofu forstjóra.

Haft er eftir Runólfi Pálssyni, forstjóra Landspítala, að niðurstaða ferlisins sé sú að hann hafi valið framkvæmdastjórn sem hann telji búa yfir mikilli þekkingu á starfsemi spítalans og færni til að mæta þeim áskorunum sem framundan séu, auk þess að hafa til að bera skýra sýn og metnaðarfullar áætlanir um framþróun spítalans hvort sem er á sviði klínískrar þjónustu, menntunar, vísindastarfs eða rekstrar.

„Ráðningarferlið hefur í mínum huga varpað ljósi á einstakan metnað umsækjenda og áhuga fyrir óeigingjörnu starfi í þágu Landspítala. Fyrir það er ég afar þakklátur og fullur bjartsýni þegar horft er til framtíðar,“ segir Runólfur.

Nýtt skipurit spítalans var kynnt í lok október síðastliðinn


Tengdar fréttir

Stjórn­endum fækkað á Land­spítalanum

Tíu stöðugildi forstöðumanna falla niður samkvæmt nýju skipuriti á Landspítalanum. Markmið skipulagsbreytinganna er að styrkja klíníska starfsemi og að hagræða í rekstri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×