Erlent

Ein­stakt kulda­kast ógn við líf manna í Banda­ríkjunum og Kanada

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Búast má við dauðsföllum vegna kuldans.
Búast má við dauðsföllum vegna kuldans. AP/Jeff Roberson

Mikið kuldakast gengur nú yfir Bandaríkin og Kanada og vara sérfræðingar fólk við því að kal geti myndast á húð á aðeins nokkrum mínútum. Veðurviðvaranir um helgina ná til 135 milljóna manna á sama tíma og gríðarlega margir eru á faraldsfæti.

Varað er við veðrinu þvert yfir Bandaríkin og jafnvel niður að landamærum Mexíkó og í sólskinsríkinu Flórída. Búið er að lýsa yfir neyðarástandi í New York, Kentucky, Norður-Karólíunu, Vestur-Virginíu, Georgíu og Oklahoma.

Þúsundum flugferða hefur þegar verið aflýst eftir því sem bætir í storminn og víða er því spáð að um jólin verði allt á kafi í snjó. 

Sumstaðar er búist við því að frostið fari í 50 gráður á celsíus. Slíkar tölur gætu líka sést á mannmörgum stöðum eins og í borginni De Moines í Iowa. 

Joe Biden forseti varaði landsmenn við því sem koma skal í ræðu í gærkvöldi, þar sem hann hvatti fólk til að halda sig heima og hætta sér ekki út í óveðrið. „Þetta er ekki snjódagur, eins og þegar við vorum börn. Þetta er alvarlegt ástand,“ sagði forsetinn.

Þá óttast yfirvöld líka tjón af völdum veðursins, þar sem ískrapi getur myndað stíflur og framkallað flóð í ám og lækjum.

Veðurstofa Bandaríkjanna segir um að ræða einstakan veðurviðburð og gerir ráð fyrir að yfir 100 kuldamet gætu fallið. Kuldinn muni ógna lífi og heilsu íbúa á austurströndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×