Bubbi hefur um árabil troðið upp á Litla-Hrauni á aðfangadag jóla en síðustu tvö ár hefur hann ekki getað það sökum heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Nú eru það önnur veikindi en Covid-19 sem koma í veg fyrir tónleika Bubba.
„Ég er ekki með covid en ég er kominn með flensudjöfulinn,“ segir Bubbi í samtali við Vísi.
Bætir föngunum missinn
Bubbi segir að til standi að hann fari á Litla-Hraun að skemmta föngunum þegar hann er stiginn upp úr flensunni. Þá gaf hann öllum fangelsum landsins beint streymi af Þorláksmessutónleikum sínum í gær.
Hann segist hafa verið orðinn mjög veikur af flensunni fyrir tónleikana í gær. „En það sér það enginn,“ segir Bubbi brattur.