Innlent

Hall­æris­legt að kirkjan spili sig sem fórnar­lamb

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Inga Auðbjörg K. Straumland formaður Siðmenntar gagnrýnir jólaprédikun biskups harðlega.
Inga Auðbjörg K. Straumland formaður Siðmenntar gagnrýnir jólaprédikun biskups harðlega. Aðsend

Formaður Siðmenntar segir hallærislegt að kirkjan láti eins og hún sé fórnarlamb. Kirkjan sé í mikilli forréttindastöðu og fái ótæpilega mikla fjármuni frá ríkinu. Hún gagnrýnir jólaprédikun biskups, sem sagði óvinsælt að nefna Guð kristinna manna í almennri umræðu.

Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands sagði í jólaprédikun sinni í gær að þöggun ríkti um Guð. Ekki væri vinsælt að nefna hann á nafn í opinberri umræðu. Hún gerði heimsóknir skólabarna í kirkjur á jólunum meðal annars að umtalsefni.

Inga Auðbjörg Straumland formaður Siðmenntar vakti athygli á orðum biskups í færslu á Twitter. Hún sagði óviðeigandi að biskup spilaði sig sem fórnarlamb, gulli skrýdd á háum launum. Í samtali við fréttastofu segir Inga Auðbjörg að henni þyki þetta hallærislegt.

„Náttúrulega bara rangt“

„Þau eru í mikilli forréttindastöðu og fá alveg ótæpilega mikla fjármuni frá ríkinu. Og þannig geta þau haldið ákveðinni einokunarstöðu á alls konar þjónustuþáttum. Þannig að mér finnst ekki í lagi að hún spili sig sem eitthvað fórnarlamb, það er náttúrulega bara rangt að það sé verið að þagga niður Guð kristinna manna, það er engin þöggun í gangi varðandi hann.“

Hún segir að Þjóðkirkjan fái 80 klukkutíma trúboð í Ríkisútvarpinu, eitthvað sem önnur lífsskoðunarfélög - kristin eða veraldleg - fái ekki. Þöggunin sé nákvæmlega ekki nein.

„Það er bara viðspyrna í gangi. Ég held að það sé mjög greinilegt að kirkjan haldi að hún sé að ná einhverjum botni og geti spyrnt svona í botninn. Þau eru komin undir 60 prósent í fyrsta skipti. Ég held að kirkjan finni það að hún sé ekki lengur eins „relevant“ í íslensku samfélagi og ætlar að reyna að spyrna í botninn. En í staðinn fyrir að gera það með því að reyna að vera relevant þá gerir hún það með því að væla yfir hlutskipti sínu,“ segir Inga Auðbjörg.


Tengdar fréttir

Biskup fjallaði um ofbeldi meðal barna

Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands fór um víðan völl í jóladagspredikun sinni frá Grafavogskirkju í morgun. Hún fór yfir mikilvægi tungumálsins, hörmungarnar í Úkraínu og ofbeldi meðal barna á árinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×