Sport

Jürgen Klopp hefur ekki áhyggjur af Darwin Nunez

Andri Már Eggertsson skrifar
Klopp á hliðarlínunni gegn Aston Villa í dag
Klopp á hliðarlínunni gegn Aston Villa í dag Vísir/Getty

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var sáttur með 1-3 sigur á Aston Villa í að hans mati erfiðum leik. 

„Þetta var erfiður leikur. Við spiluðum vel og ég var ánægður með leikinn. Í seinni hálfleik fannst mér við eiga að gera betur á síðasta þriðjungi en okkur tókst að halda þetta út,“ sagði Jürgen Klopp í viðtali við Amazon eftir 1-3 sigur.

Klopp var afar ánægður með átján ára Stefan Bajcetic sem skoraði þriðja mark Liverpool.

„Ég var mjög ánægður með þriðja markið. Ég var ánægður með hvernig Darwin Nunez tók boltann niður og hvernig Stefan kláraði færið.“

„Hugarfarið hans er gott og hann skilur leikinn vel. Það eru forréttindi að þjálfa þessa ungu stráka. Stefan Bajcetic, Ben Doak og Bobby Clark. Framtíðin er björt og þessir strákar passa inn í liðið.“

Þrátt fyrir að Darwin Nunez hafi ekki tekist að skora þá var Jürgen Klopp ánægður með frammistöðu hans.

„Darwin Nunez spilaði frábærlega. Hann mun skora fleiri mörk. Ég hef engar áhyggjur af því. Nunez gefur okkur miklu meira en bara mörk en hann mun líka skora. Þetta var óvenjulegur leikur,“ sagði Jürgen Klopp í viðtali við Amazon. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×