Sam Bankman-Fried, stofnandi FTX er sakaður um að hafa framið stórfelld skattsvik gagnvart viðskiptavinum og fjárfestum. Hann var ákærður fyrir fjársvik, ólögleg kosningaframlög og peningaþvætti.
FTX varð gjaldþrota í nóvember síðastliðnum en um svipað leyti bárust fregnir af því að viðskiptahættir rafmyntaverkvangsins væru til rannsóknar. Áhyggjur af stöðu fyrirtækisins leiddu til áhlaups og á þremur sólarhringum seldu viðskiptavinir rafmyntir sínar fyrir um 889 milljarða íslenskra króna.
Eignir FTX voru síðar frystar en fyrirtækið er sagt skulda fimmtíu stærstu kröfuhöfum búsins 441 milljarð íslenskra króna.
Viðskiptavinirnir sem lögsækja nú FTX óska eftir staðfestingu þess efnis að rafrænar eignir verkvangsins séu eign þeirra. Lögsóknin er sögð tilraun viðskiptavina til þess að fá eitthvað af eignum sínum til baka frá fyrirtækinu en líkur á því virðist hverfandi. Þessu greinir Reuters frá.
Færð eru rök fyrir því að viðskiptavinirnir eigi fyrstir að fá borgað til baka í stað annarra lánardrottna. Mögulegt er að hóplögsóknin muni ná utan um eina milljón viðskiptavina FTX.