Fótbolti

Mbappe í tapliði PSG í toppslag frönsku deildarinnar

Smári Jökull Jónsson skrifar
Lois Openda skorar hér framhjá Gianluigi Donnarumma í leiknum í kvöld.
Lois Openda skorar hér framhjá Gianluigi Donnarumma í leiknum í kvöld. Vísir/Getty

RC Lens setti spennu í toppbaráttuna í frönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þegar liðið lagði PSG í uppgjöri tveggja efstu liða deildarinnar í kvöld. Lokatölur 3-1 og forysta PSG á toppnum nú aðeins fjögur stig.

Kylian Mbappe var í byrjunarliði PSG í kvöld en Lionel Messi er enn í fríi eftir sigurinn með Argentínu á heimsmeistaramótinu á dögunum. Hinn brasilíski Neymar var í leikbanni eftir að hafa fengið tvö gul spjöld og rautt gegn Strasbourg í síðustu umferð, síðara gula spjaldið fyrir leikaraskap.

Fyrir leikinn í kvöld voru liðin eins og áður segir í efstu tveimur sætum deildarinnar, PSG á toppnum með 44 stig en RC Lens með 37 stig í öðru sæti.

Leikurinn fór svo sannarlega fjörlega af stað. Przemysalw Frankowski kom RC Lens í 1-0 á 5.mínútu en hinn tvítugi Hugo Ekitike jafnaði fyrir PSG aðeins þremur mínútum síðar. Á 28.mínútu kom Lois Openda RC Lens í 2-1 þegar hann slapp einn gegn Gianluigi Donnarumma í marki PSG sem kom engum vörnum við.

Staðan í hálfleik 2-1 og strax eftir tvær mínútur í seinni hálfleik skoraði Alexis Claude-Maurice þriðja mark heimamanna og brekkan orðin brött fyrir gestina frá París.

Christophe Galtier, þjálfari PSG, gerði fjórar breytingar í síðari hálfleiknum en allt kom fyrir ekki. RC Lens fagnaði 3-1 sigri og minnkaði forskot PSG á toppnum í fjögur stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×