Fótbolti

Móðir Pele veit ekki að hann er dáinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pele lést á fimmtudaginn var eftir erfið veikindi en móðir hans er enn á lífi.
Pele lést á fimmtudaginn var eftir erfið veikindi en móðir hans er enn á lífi. AP/Ivan Sekretarev

Knattspyrnugoðsögnin Pele tapaði stríðinu við krabbameinið rétt fyrir áramótin og síðan hafa fólk og fjölmiðlar minnst einstaks ferils hans.

Hinn 82 ára gamli Brasilíumaður var einn frægasti og fremst íþróttamaður sögunnar og frábær sendiherra fyrir fótboltann út um allan heim.

Pele er sá eini sem hefur orðið þrisvar sinnum heimsmeistari og skoraði bæði í fyrsta úrslitaleiknum á HM sautján ára sem og þeim síðasta tólf árum síðar. Hann skoraði yfir þúsund mörk á ferli sínum.

Þriggja ára þjóðarsorg var lýst yfir í Brasilíu og það fer ekkert á milli mála á viðbrögðum bestu knattspyrnumanna þjóðarinnar hversu miklu máli Pele skipti í þeirra knattspyrnuuppeldi.

Það er því varla manneskja í Brasilíu sem veit ekki af því að Pele sé farinn yfir móðuna miklu.

Ein af þeim veit ekki að Pele er dáinn er móðir hans. Móðir hans heitir Dona Celeste og er orðin hundrað ára gömul. Maria Lúcia, systir Pele, sagði frá því að móðir þeirra viti ekki af því að sonur hennar sé dáinn.

Móðir þeirra er orðinn mjög öldruð og ekki lengur hægt að ná sambandi við hana.

„Við höfum reynt að tala við hana en hún veit ekki hvað hefur gerst. Hún hefur það ágætt en býr bara núna í sínum eigin heimi. Stundum opnar hún augun en hún meðtekur ekki það við erum að segja við hana,“ sagði Maria Lúcia við ESPN í Brasilíu.

Farið verður með kistu Pele til Vila Belmiro leikvangsins í dag en það er heimavöllur Santos liðsins sem hann spilað með stærsta hluta ferils síns.

Á leið sinn á leikvanginn verður farið með kistuna fram hjá húsinu þar sem móðir hans býr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×