Bandaríkin, Bretland, Indland, Japan og nokkur Evrópulönd eru meðal þeirra ríkja sem hafa ákveðið að grípa til aðgerða á landamærum sínum, ekki síst vegna skorts á gögnum frá Kína um smitfjölda, dauðsföll og þau afbrigði sem þar eru í dreifingu.
Nokkrar áhyggjur eru uppi af því að ný afbrigði gætu borist þaðan, sem óvíst er hvernig svara bóluefnum.
Mao Ning, talsmaður utanríkisráðuneytis Kína, sagði á blaðamannafundi að landamæraaðgerðir ríkjanna væru ekki byggðar á vísindalegum grunni og að sum ríki hefðu gengið óásættanlega langt í viðbrögðum sínum.
Sakaði hún ríki um að misnota Covid í pólitískum tilgangi og að Kínverjar myndu grípa til viðeigandi gagnaðgerða.
Ned Price, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, sagði aðgerðirnar hins vegar þvert á móti algjörlega í takt við vísindin og þær miðuðu að því að stand vörð um lýðheilsu á sama tíma og kórónuveiran væri í sókn í Kína og skortur væri á gögnum þaðan um stöðu faraldursins og þau afbrigði sem væru að greinast.
Price ítrekaði að Bandaríkjamenn væru reiðubúnir til þess að deila bóluefnabirgðum sínum með Kínverjum, sem hafa hingað til viljað halda sig við eigið bóluefni sem sérfræðingar segja ekki jafn gott og þau sem hafa verið þróuð á Vesturlöndum.