Veður

Hvassast á Vest­fjörðum og frost að tólf stigum á landinu

Atli Ísleifsson skrifar
Kalt er á höfuðborgarsvæðinu í morgun.
Kalt er á höfuðborgarsvæðinu í morgun. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan gerir ráð fyrir austlægri eða breytilegri átt á landinu í dag. Víðast hvar verður vindur á bilinu fimm til þrettán metrar á sekúndu og þá hvassast á Vestfjörðum.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir það verði dálítill éljagangur norðantil en þurrt að kalla og bjart með köflum syðra.

Frost verður á bilinu núll til tólf stig.

„Í kvöld bætir síðan í vind og á morgun verður norðaustan 10-15 m/s og éljagangur en að mestu bjart suðvestanlands. Heldur hlýnar og hiti verður um og undir frostmarki.“

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag: Norðaustan 10-18 m/s, hvassast á Vestfjörðum og með suðausturströndinni. Víða slydda eða snjókoma með köflum, en þurrt að kalla suðvestantil. Hlýnandi veður, hiti um frostmark síðdegis.

Á sunnudag: Ákveðin norðaustan átt og snjókoma, en slydda eða rigning með suðurströndinni. Hiti kringum frostmark.

Á mánudag: Norðlæg átt og snjókoma, en þurrt að kalla sunnan heiða. Hiti breytist lítið.

Á þriðjudag: Norðlæg átt eða breytileg átt og bjart með köflum en lítilsháttar snjókoma norðvestantil. Vægt frost.

Á miðvikudag og fimmtudag: Norðlæg átt og él, en að mestu bjart sunnantil. Kólnar í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×