Margir voru ansi svekktir þegar tilkynnt var um lokun rótgróna veitingastaðarins Lauga-ás í nóvember. Ragnar Kr. Guðmundsson, veitingamaður og stofnandi Lauga-áss var þó ekki alveg tilbúinn að hætta og má segja að hann hafi bara tekið sér gott jólafrí. Staðurinn opnaði á ný í gær en næstu daga mun allur ágóði renna til Neistans, styrkarfélags hjartveikra barna.
Í kvöldfréttatíma Stöðvar 2 í gær kíktum við á Lauga-ás þar sem Ragnar, sem ótrúlegt en satt er kominn yfir áttrætt, stóð vaktina ásamt sjálfboðaliðum frá Neistanum.
„Þú varst ekki alveg tilbúinn til að hætta?“
„Nei ekki alveg, en núna er vikan mín komin. Hérna er ég með yndislegt fólk með mér sem mig langar að hjálpa og styrkja. Svo ætla ég að halda áfram. Kúnnarnir mínir hafa margir hverjir, ég segi kannski ekki alveg, hótað mér hinu og þessu, en í næstu viku verður opið fimmtudag, föstudag og laugardag. Svo verður bara gaman áfram fram á vorið. Sjáum hvernig verður,“ segir Ragnar.
María Dís, 14 ára stóð vaktina í gærkvöldi en ásamt öðrum í Neistanum.
„Mig langaði að hjálpa til þar sem ég með hjartagalla og er í Neistanum,“ sagði María.

Björgvin Unnar, 8 ára var einnig mættur til starfa en hann er einnig svokallað hjartabarn. „Ég er að vinna hérna, ég var líka að teikna svona,“ sagði Björgvin og sýndi fallega af teikningu eftir sig. Á myndinni sést hann þegar hann var lítill, með gat á hjartanu eins og svo af honum stærri þar sem búið var að laga gatið.
„Þetta er ég með hjarta og ég var lítill, þá var ég með gat“.
Þú ert að vinna hérna í kvöld líka?
„Já.“
Björgvin Unnar hefur háleita framtíðardrauma og tjáði fréttamanni að hann ætlaði að verða vísindamaður eða veitingamaður. Eftir frammistöðu hans í kvöldfréttatíma Stöðvar 2 í gær voru þó allir sammála um að fjölmiðlar ættu líka sérlega vel við hann.
„Hann er duglegur og alveg á útopnu, og þau bæði, þessar elskur", segir Ragnar. „Ég vona bara að mínir kúnnar komi og styðji okkur eins og þau geta. Þetta verður alla vikuna, yndisleg vika. Við ætlum að vera hérna saman eins og ein samhent fjölskylda."

