Skoðun

Er ekki tilefni til að skammast sín og biðjast afsökunar?

Tómas Ellert Tómasson skrifar

Skólastjóri Verzlunarskóla Íslands þvertekur fyrir það í samtali við fréttamann visir.is fyrr í dag að biðja Sigmund Davíð Gunnlaugsson formann Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra afsökunar á því óþverrabragði kennara við skólann að stilla Sigmundi upp við hlið alræðissinna og fjöldamorðingja á glæru í „kennslustund“ við skólann. Ennfremur segir hún að ekki sé tilefni til þess vegna þess að glæran hafi verið notuð til að kveikja umræður meðal nemenda um ólíkar birtingarmyndir þjóðernisstefnu í stjórnmálafræði við skólann.

Það er sem sagt í lagi að mati skólastjórans að setja fram kennsluefni á slíkan hátt til að "kveikja umræður" á meðal nemenda, öðruvísi mér áður brá. Þegar ég var í framhaldsskóla á níunda áratug síðustu aldar sótti ég eins marga sögu- og stjórnmálaáfanga og ég mögulega gat, því þeir voru eitt af því fáa sem að ég hafði áhuga á að nema á þeim tíma. Ég fullyrði að aldrei, ég endurtek, aldrei var námsefninu í þeim áföngum stillt upp með slíkum hætti að kennari reyndi að mynda hugrenningatengsl á milli alræðissinna út í heimi við íslenska stjórnmálamenn eða aðra Íslendinga yfirhöfuð. Og það þrátt fyrir að einhverjir kennararnir voru yfirlýstir Alþýðubandalagsmenn eða eitthvað annað. Það kom þeim ekki til hugar.

Hvað annað er atvikið sem kom upp í Verzló annað en skýrt dæmi um innrætingu og áróður af hálfu kennara við skólann? Viðbrögð skólastjórans eru mér mikil vonbrigði verð ég að segja. Viðbrögðin bera vott um að ofbeldi og einelti sé samþykkt í skólanum þrátt fyrir að skólinn hafi sett sér áætlun gegn einelti, ofbeldi, kynferðislegri áreitni og kynbundinni áreitni.

Til bjargar andliti hins merka skóla að þá kem ég hér með tillögu að afsökunarbeiðni sem notast má við til fulltrúaráðs og skólanefndar Verzlunarskóla Íslands þar sem upp kom atvik í skólanum sem tilefni er til að skammast sín fyrir og biðjast afsökunar á:

„Fulltrúaráð og skólanefnd Verzlunarskóla Íslands lýsir yfir af gefnu tilefni:

Fulltrúaráð og skólanefnd Verzlunarskóla Íslands biðst afsökunar á því illgirnislega óþverrabragði kennara við skólann að líkja Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni formanni Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra við alræðissinna og fjöldamorðingja. Skýrir verkferlar verða nú settir svo eitthvað þessu líkt endurtaki sig ekki.

Við lærum af mistökum og heitum því að vanda vel til kennsluhátta þannig að ekki falli þar skuggi á eins og gerðist í tilviki fyrrverandi kennara við skólann, því miður.

Við biðjum Sigmund Davíð í einlægni formlega afsökunar á athæfinu.

Fulltrúaráð og skólanefnd Verzlunarskóla Íslands fordæmir alfarið allt einelti, fordóma og ofbeldi af öllu tagi, nú sem endranær. Til áréttingar að þá hefur kennaranum sem beitti óþverrabragðinu verið sagt upp störfum.

Fulltrúaráð og skólanefnd Verzlunarskóla Íslands“

Höfundur er fyrrverandi bæjarfulltrúi Miðflokksins í Svf. Árborg.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×