Erlent

Flug­banni í Banda­ríkjunum af­létt en lítið vitað um or­sök

Hólmfríður Gísladóttir og Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifa
Flugfarþegar hafa verið varaðir við töfum.
Flugfarþegar hafa verið varaðir við töfum. Getty/Anadolu Agency/Paul Hennessy

Fjölda flugferða hefur verið frestað í Bandaríkjunum vegna bilunar sem upp er komin í kerfi sem sendir út viðvaranir til flugmanna um mögulegar ógnir á flugleiðum.

Flugmálayfirvöld (FAA) segja bilunina ná til alls kerfisins, það er að segja alls landsins en samkvæmt American Air hefur uppákoman áhrif á allt flug hjá öllum flugfélögum.

Forsvarsmenn Austin-Bergstrom International Airport í Texas staðfestu í tísti að allt flug hefði verið kyrrsett á vellinum og á öðrum flugvöllum í Bandaríkjunum. Farþegar ættu að búa sig undir tafir.

LaGuardia hefur einnig tíst viðvörun til farþega.

Samkvæmt umfjöllun Guardian er nú unnið að því að laga kerfisbilunina en ekkert sé vitað um það hvenær ferðalangar gætu búist við því að kerfið yrði komið í lag. 

Uppfært kl. 14:13

Nú um klukkan tvö hefur bann á flugferðum til, frá og innan Bandaríkjanna verið aflétt. Þetta kemur fram á vef BBC. Meira en  2.500 flugum var á endanum seinkað. Bilunin hefur ekki enn haft nein áhrif á áætlunarflug íslenskra flugfélaga. 

Samkvæmt tilkynningu frá Joe Biden, Bandaríkjaforseta var ekki um tölvuárás að ræða en lítið annað virðist vitað um ástæðu bilunarinnar. Hún mundi vonandi liggja fyrir á næstu klukkutímunum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×