Innlent

Halda sínu striki þrátt fyrir bilun í Banda­ríkjunum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Flugvélar Play og Icelandair á Keflavíkurflugvelli.
Flugvélar Play og Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Vísir/Vilhelm

Bilun í NOTAM-flugumferðarkerfinu í Bandaríkjunum hefur ekki áhrif á ferðir Icelandair og Play að svo stöddu. Bandaríkjaflug flugfélaganna tveggja eru á áætlun að svo stöddu.

Fjölda flugferða hefur verið frestað í Bandaríkjunum vegna bilunar sem upp er komin í NOTAM-kerfinu sem sendir út viðvaranir til flugmanna um mögulegar ógnir á flugleiðum.

Flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum (FAA) segja bilunina ná til alls kerfisins, það er að segja alls landsins en samkvæmt American Air hefur uppákoman áhrif á allt flug hjá öllum flugfélögum.

Svo virðist sem að bilunin hafi, sem stendur, eingöngu áhrif á innanlandsflug í Bandaríkjunum.

Samkvæmt svörum frá íslensku flugfélögunum Icelandair og Play er grannt fylgst með gangi mála en að svo stöddu séu Bandaríkjaferðir félaganna tveggja á áætlun.

„Staðan er þannig að við fylgjumst bara með málinu en enn sem komið eru allar vélar okkar á áætlun,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair í samtali við Vísi.

Nadine Guðrún Yaghi, samskiptastjóri Play, tekur í sama streng.

„Við höldum okkar við planið nema eitthvað breytist,“ segir hún.

Samgönguráðuneyti Bandaríkjanna hefur verið fyrirskipað að rannsaka hvað varð til þess að kerfið bilaði. Í frétt Guardian segir að Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hafi verið upplýstur, en að engin merki sé um að bilunin sé af völdum tölvuárásar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×