Skoðun

Vegan dýranna vegna

Rósa Líf Darradóttir skrifar

Veganúar

Fjöldi fólks mátar sig við vegan lífsstílinn í janúarmánuði. Fyrir því liggja yfirleitt umhverfis-, heilsufars- eða dýraverndunarsjónarmið. Mér þykir þáttur dýra vega þyngst, þó hinar ástæðurnar séu einnig göfugar. Ég hef alla tíð verið hænd að dýrum og sóst eftir félagsskap þeirra. Átt þau að vinum og skynjað í þeim eiginleika sem margir telja einskorðast við mannfólk. Ég hef kynnt mér aðstæður dýra í matvælaiðnaði og þjáninguna sem þau upplifa. Þessi dýr eru gædd sömu eiginleikum og kisurnar, hundarnir og hestarnir í lífi mínu. Í kjölfarið var það rökrétt ákvörðun fyrir mig að útvíkka samkenndina út fyrir eigin dýrategund og gæludýr. Sýna kærleik til dýra í orði og á borði. Hið gleðilega er að þessi ákvörðun mín útheimtir engar fórnir í lífsgæðum þar sem grænkerafæði er fjölbreytt, dásamlega gómsætt og næringarríkt.

Ísland best í heimi

Íslendingar eru gjarnir á að telja sér trú um að hérlendis sé meðferð dýra eins og best gerist í heiminum. Ég var sannarlega ein af þeim. En staðreyndirnar tala sínu máli. Við erum eftirbátar flestra siðmenntaðra þjóða hvað þetta varðar. Blóðmerahald, loðdýrarækt og hvalveiðar viðgangast þrátt fyrir að góð dýravelferðarlög séu í gildi. Brellan virðist vera sú að ekki þurfi að fylgja þeim svo lengi sem athæfið skilar arði. Mat hagsmunaaðila og fjárhagslegur ávinningur skákar öllu. Þauleldi fær að þrífast í augljósri mótsögn við fyrrnefnd lög. Svín, minkar, kjúklingar, varphænur og eldisfiskar eru haldin við ömurlegar og ónáttúrlegar aðstæður. Velferð þeirra er fórnað fyrir hámörkun afurða sem framleiddar eru við lágmarks framleiðslukostnað. Þau eru haldin þröngt og fá engin tækifæri til að stunda sitt eðlilega atferli. Iðnaður þessi fær stóra ríkisstyrki. Til að mynda fengu loðdýrabændur 160 milljón kr. styrk árið 2020. Alifugla- og svínabændur fengu 450 milljón kr. styrk í sumar.

Eftirlit með velferð dýra

Mörg fylgdust með hópi vanræktra hrossa í haust. Hross þessi höfðu verið innilokuð til lengri tíma og vanfóðruð. Matvælastofnun var gert vart um ástand hrossana í sumar. Þrátt fyrir að mál þetta hafi verið “í ferli” endar það á þann veg að stór hluti hrossana er felldur vegna vanrækslu. Þetta er niðurstaðan í máli sem hlaut mikla athygli almennings og fjölmiðla. Þetta gefur hugmynd um hvernig þetta eftirlitskerfi virkar fyrir hin dýrin sem búa innilokuð í skemmum sem enginn fær að sjá eða heyra af.

Meðferð dýra í mótsögn við þekkingu

Við lifum á einkennilegum tímum. Við höfum aldrei haft jafn mikla þekkingu á dýrum og nú. Það er vísindalega staðfest og samfélagslega viðurkennt að dýr eru skyni gæddar verur með eigin upplifanir og eiga sér tilfinningalíf líkt og við. Samt er það svo að við höfum aldrei farið eins illa með dýr og við gerum nú. Við fjöldaframleiðum þau í kerfi sem neitar þeim um réttindi til lífs í samræmi við þeirra eðli. Einungis í þeim tilgangi að drepa þau til að borða. Það er ekki af illri nauðsyn sem við gerum þetta, það er val okkar og krafa um stöðugt flæði af ódýrum dýraafurðum í matvöruverslunum. Sú skelfilega þróun hefur átt sér stað í flestum löndum að búum hefur fækkað og þau stækkað. “Afkastageta” hefur aukist og fjöldi slátraðra landdýra hefur rúmlega tífaldast frá árinu 1961. Á sama tíma hefur mannfjöldi rúmlega tvöfaldast. Nú slátrum við um 10 dýrum fyrir hvert mannsbarn í stað tveggja árið 1960. Þessar tölur byggja á kjötframleiðslu og ná ekki yfir dýr í mjólkur- og eggjaframleiðslu. Þær tæpu þrjár billjónir fiska sem við drepum árlega eru heldur ekki taldir með.

Þekking okkar er sífellt að aukast en alltaf kemur það betur í ljós þessi tilhneiging mannsins til þess að vanmeta greind og tilfinningalíf dýra. Við þurfum ekki að fara lengra aftur í tímann en til ársins 1918 þegar Ingunn Einarsdóttir frumkvöðull í dýravernd reyndi að sannfæra landann um að önnur dýr ættu margt sameiginlegt með mannfólki við misjafnar undirtektir en hún sagði:

Við ættum oftar en við gerum, að muna eftir því, í umgengninni við dýrin, að margt er sameiginlegt með

þeim og okkur mönnunum. Þau hafa flestar hinar sömu kenndir og maðurinn, bæði líkams- og sálarlegs eðlis, sem að mörgu leyti standa kenndum mannsins lítið neðar, ef það er þá nokkuð. Fara því skilyrðin fyrir hinni líkamlegu líðan mjög saman hjá mönnum og dýrum. Maðurinn finnur sársauka. Dýrin kenna líka sárt til. Maðurinn veikist. Dýrin veikjast líka. Líkt er því farið með andlega líðan, eða sálarlega kenndir. Maðurinn gleðst, það gera dýrin líka. Maðurinn hryggist. Það gera dýrin líka. Maðurinn reiðist. Það gera dýrin líka. Maðurinn hræðist. Það gera dýrin líka.” - Ingunn Einarsdóttir, 1918


Árið 1960 gerði dýra- og mannfræðingurinn Jane Goodall þá merkisuppgötvun að simpansar nota verkfæri. Það varð til þess að vísindafólk þurfti að endurskilgreina hvað það þýðir að vera mennskur. Þar til þá héldum við að eina dýrið sem notaði verkfæri væru menn. Í dag vitum við að fleiri dýr nota verkfæri eins og t.d. svín, fílar, hrafnar og kolkrabbar. Við vitum að rottur búa yfir samkennd og bjarga félögum sínum úr neyð frekar en að þiggja nammibita. Við vitum að svín kunna að meta tónlist og geta lært að spila tölvuspil. Við vitum að hvalir og fílar syrgja fráfallna vini. Við vitum að hestar eru næmir á tilfinningaástand annarra hesta og mannfólks. Það var ekki fyrr upp úr tíunda áratugnum að loks ríkja sættir innan vísindasamfélagsins um hið augljósa, dýr skynja sársauka líkt og menn.

Leikur að eldi

Loftslagsváin er yfirvofandi og ljóst er að jörðin þolir ekki áframhaldandi óhófsneyslu mannkyns á dýraafurðum. Aðrar og ekki síðri ógnir sem steðja að framtíð okkar eru sýklalyfjaónæmi og heimsfaraldrar. Rekja má allt að 70% notkun sýklalyfja á heimsvísu til landbúnaðar. Hvernig dýr eru alin í matvælaiðnaði um allan heim, við hámarksþéttleika, innan um óhreinindi og í lélegum loftgæðum eru einmitt kjöraðstæður fyrir fjölónæmar bakteríur og stökkbreyttar veirur til að ná sér á skrið.

Hefðir - vondur siðferðilegur áttaviti

Grace Hopper tölvunarfræðingur, doktor í stærðfræði og undirflotaforingi sagði eitt sinn að hættulegasti frasi tungumálsins væri: „Við höfum alltaf gert þetta svona”.

Mér þykir það eiga vel við í samtalinu um neyslu dýraafurða. Grænkerar eru hópur fólks sem deilir þeirri hugsjón að það sé siðferðilega rétt að standa gegn ofbeldi dýra og virða rétt þeirra til lífs án þjáninga. Þessi hópur fær gjarnan að heyra að afstaða þeirra sé öfgakennd. Við sjáum það í gegnum mannkynssöguna hvort sem það er afnám þrælahalds, réttindabarátta kvenna eða hinsegin fólks að siðferðismeðvitund eykst í takt við aukna þekkingu samfélags þess tíma. Alltaf heyrast þó háværar raddir sem reyna að réttlæta óréttlætið vegna menningarlegra hefða. Oftar en ekki liggja öfgarnar einmitt í þeim. Ef við myndum láta hefðirnar stjórna okkur, þá yrði algjör stöðnun í siðferðisþróun. En vegan hreyfingin er einmitt hluti af þessari þróun, hún er réttindabarátta í þágu þeirra sem minna mega sín og þeirra sem ekki geta varið sig.

Höfundur er læknir.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×