Erlent

Fyrir­tæki Trump greiði 1,6 milljón dollara sekt fyrir skatt­svik

Bjarki Sigurðsson skrifar
Donald Trump er hann tilkynnti um framboð sitt til forseta Bandaríkjanna á næsta ári.
Donald Trump er hann tilkynnti um framboð sitt til forseta Bandaríkjanna á næsta ári. Getty/Joe Raedle

Fyrirtækinu Trump Organization sem er í eigu Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, hefur verið gert að greiða rúmlega 1,6 milljón dollara, tæplega 230 milljónir íslenskra króna, í sekt vegna skattsvika. Einn lögfræðinga fyrirtækisins segir Trump ætla að áfrýja dómnum. 

Í byrjun desember komust kviðdómendur Hæstaréttar Manhattan að fyrirtækið hafi framið skattsvik og aðra glæpi. Yfirmenn hjá fyrirtækinu nýttu það til þess að borga sér laun í formi fríðinda, til dæmis með því að greiða fyrir íbúðir og bíla þeirra. 

Fyrrverandi fjármálastjóri fyrirtækisins, Allen Weisselberg, var meðal þeirra sem bar vitni gegn fyrirtækinu í málinu en hann bendlaði Trump sjálfan aldrei við svikin. Þá var forsetinn fyrrverandi ekki ákærður í þessu máli en nafn hans var þó ítrekað sagt við réttarhöldin. 

Dómari í New York ákvarðaði í dag að sektin ætti að vera 1,6 milljónir dollara eða 230 milljónir króna. Þá hafði hann þegar dæmt fjármálastjórann fyrrverandi í fimm mánaða fangelsi. Reuters hefur eftir Susan Necheles, einum lögfræðinga fyrirtækisins, að stefnt sé að því að áfrýja dómnum. 

Trump er ekki búinn að losna alveg strax en í öðru dómsmáli sem ríkissaksóknarinn Letita James höfðaði gegn honum gæti hann þurft að greiða 250 milljónir dollara í sekt. James hefur sakað Trump sjálfan og þrjú elstu börn hans, Donald Trump yngri, Ivönku Trump og Eric Trump, um umfangsmikil skatt- og bankasvik. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×