Eins og sjá má á veðurkortum Veðurstofunnar er spáð ausandi rigningu á föstudaginn og hita allt upp í átta gráður. Þetta eru mikil viðbrigði eftir talsvert frost sem ríkt hefur á landinu undanfarna daga.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur kallar þetta „Bóndadagsblotann“ en hann rennir í gegnum sín spákort fyrir vini sína á Facebook. Hann gerir ekki ráð fyrir alveg eins miklum hita í sínum spám.
„Bylgju af vel mildu lofti er spáð á föstudag (bóndadag) yfir landið. Hiti gæti komist í 5 til 6°C sunnanlands og þar fylgir með rigning. um 3 til +5°C norðantil. Fer hratt yfir og strax á laugardagskvöld nær aftur að frysta og þá með V-átt,“ segir Einar. Þetta þýðir aðeins eitt, miðað við aðstæður. Það blotnar hressilega í klakaböndum, freðnum snjóhrúgum og allt fer á flot. Þegar svo frystir aftur verður flughálka á landinu og allar aðstæður viðsjárverðar.
„Langtímaspár eru síðan reikular með framhaldið,“ segir Einar sem spáir svo annarri bylgju af mildu lofti strax á sunnudaginn en það gerir Veðurstofan hins vegar ekki. „Eða öllu heldur ekki fyrr en á þriðjudag eftir viku.“