Tæp vika er liðin síðan Efling sleit kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins og stefnir í verkfall. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir í samtali við fréttastofu að enn sé unnið að verkfallsboðun en búast má við að hún berist á næstu dögum.
Efling er ekki ein um að vera í kjaraviðræðum en samningar BHM, BSRB og Kennarasambands Íslands renna ekki út fyrr en í lok mars en formenn samtakanna hafa lýst yfir vilja til að skrifa undir sem fyrst til að launahækkanir taki gildi eins fljótt og unnt er.
Tæpar tvær vikur eru liðnar síðan samninganefndir BHM, BSRB og Kennarasambandsins fóru á fund samninganefndar ríkisins til að hefja verkið en fyrsti formlegi viðræðufundurinn fór fram síðastliðinn föstudag.
„Fyrir vikulokin þurfum við að klára formlegar viðræðuáætlanir milli ríkisins og aðildarfélaga BHM. Við erum bara að vinna þá vinnu hratt og vel. Svo heldur samtalið áfram,“ segir Friðrik Jónsson formaður BHM.
Efnislega séu samninganefndirnar ekki farnar að fara á dýptina enn en stéttarfélögin hafi kynnt sínar áherslur.
„Sem er að klára að leiða úr þau verkefni sem tengjast lífeyrissamkomulaginu frá 2016 sem varðar jöfnun milli markaða. Það er flókið en við vonum að við förum að sjá til lands í því verkefni.“
Ríkið hafi boðið stéttarfélögunum að fara inn í viðræðurnar á forsendum skammtímasamnings.
„Við að sjálfsögðu bregðumst við því og erum tilbúin til að ræða það. Hvort það verði niðurstaðan er ekki hægt að segja formlega núna en það er uppleggið af hálfu hins opinbera,“ segir Friðrik.
Fallist stéttarfélögin á skammtímasamning verði forsendur þess annars vegar launahækkanir og hins vegar að verkáætlun fyrir næstu tólf mánuði liggi fyrir.
„Ef við förum að gera skammtímasamning þá er það ein af forsendum þess að slíkur samningur gangi upp vissulega að fá strax einhverjar launahækkanir. En líka að verkaáætlun fyrir næstu tólf mánuði sé skýr, að það sé kjöt á beinunum og vel tilgreindar tímaáætlanir. Hvað erum við að fara að ræða? Hvenær ætlum við að ræða það? Að hvaða markmiðum stefnum við að? Að þetta gerist innan þessa tímaramma þannig að það verði raunverulegur af að gera þetta með þessum hætti,“ segir Friðrik.