Maðurinn var farþegi í flugi frá Varsjá í Póllandi til Keflavíkurflugvallar þann 6. nóvember síðastliðinn og var hann með töflurnar faldar innanklæða í fatnaði sem hann klæddist við komuna til landsins.
Maðurinn játaði sök og segir í dómi að efnin hafi verið ætluð til söludreifingar. Vísað er í svarbréfi embættis landlæknis frá árinu 2019 að árið 2018 hafi verið skráð alls 39 lyfjatengd dauðsföll á íslandi þar af 23 dauðsföll af völdum ópíóða.
Í niðurstöðukafla bréfs yfirlæknisins segir meðal annars að tvær til þrjár töflur af OxyContin 80 mg geti verið banvænar. Hjá óreyndum neytendum sem mylji töflurnar, eða einstaklingum sem séu undir áhrifum annarra slævandi efna, geti jafnvel ein tafla verið lífshættuleg.
Maðurinn hefur ekki sakaferil hér á landi svo kunnugt sé og mat dómari hæfilega refsingu vera níu mánuða fangelsi. Til frádráttar kemur sex daga gæsluvarðhald sem maðurinn sætti eftir komuna til landsins.
Efnin voru gerð upptæk og þá var manninum gert að greiða málsvarnarþóknun verjanda síns og annan sakarkostnað, alls um 1,2 milljónir króna.