Lífið

„Ég man alltaf eftir því þegar ég lagði barnið á bekkinn og horfði í augun á pabbanum“

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Í nýjasta þætti af Baklandinu var meðal annars rætt við slökkviliðsmanninn Einar Örn Jónsson.
Í nýjasta þætti af Baklandinu var meðal annars rætt við slökkviliðsmanninn Einar Örn Jónsson. Stöð 2

Slökkviliðsmaðurinn Einar Örn Jónsson byrjaði ungur að sinna björgunarsveitarstörfum. Hann var staddur á björgunarsveitaræfingu í Borgarfirði þegar það barst útkall sem hann mun aldrei gleyma. Tveir átta ára gamlir drengir höfðu drukknað.

Rætt var við Einar Örn í nýjasta þætti af Baklandinu. Í þættinum lýsir hann sinni upplifun af þessu hörmungaratviki sem átti eftir að hafa mótandi áhrif á hann.

„Ég var mjög ungur þegar ég byrjaði að hafa afskipti af svona slysavarna- og björgunarmálum. Ég var nú bara fimmtán ára sem messagutti á varðskipi og svo fór ég yfir í björgunarsveitirnar '85 minnir mig. Þá fer ég mjög fljótlega á þessa afmælisæfingu sem verður þarna uppi í Borgarfirði og þar lendum við í því að það verður þarna alvöru útkall á æfingunni. Það drukkna þarna tveir drengir.“

„Þetta atvik hafði mjög mótandi áhrif á mig“

Eftir að drengirnir fundust fór Einar niður í fjöruna þar sem hann tók við öðrum drengnum.

„Ég tek við barninu og held á því upp. Þá var nú búið að setja teppi á þá og svoleiðis og búið að reyna að endurlífga þá. Ég man alltaf eftir því, ég labbaði upp grýtta fjöruna. Þegar ég kem upp fyrir fjörukambinn þá er lögreglubíll á bryggjunni og börur. Faðirinn var með í lögreglubílnum og ég man alltaf eftir því þegar ég lagði barnið á bekkinn og horfði í augun á pabbanum. Það var erfitt.“

„Við erum alltaf að reyna okkar besta í þessum geira en stundum dugir það ekki til. Það er bara því miður þannig. Þetta er eitthvað svona móment sem maður gleymir ekkert svo glatt. Þetta atvik hafði mjög mótandi áhrif á mig.“

Hér að neðan má sjá brot úr þættinum.

Klippa: Ég man alltaf eftir því þegar ég lagði barnið á bekkinn og horfði í augun á pabbanum





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.