Lögregla segir nafn konunnar sem lést hafa verið Summer Myomick og drengsins Clyde Ongtowasruk. Þau bjuggu bæði í bænum Wales og í bænum St. Michael. Wales er lítill, hundrað manna bær á vesturströnd Alaska, innan við hundrað kílómetrum frá Rússlandi.
Í frétt Alaska Public Media segir að árásin hafi átt sér stað nærri Kingikmiut-skólanum í bænum.
Susan Nedza, yfirmaður skólamála á svæðinu, segir að fyrir árásina hafi hvítabjörninn verið að elta aðra íbúa sem voru utandyra í bænum.
„Þegar þau reyndu að hræða björninn í burtu þá elti björninn þau. Þau fóru þá inn í skólann og björninn hélt eftirförinni áfram. Þau rétt náðu að loka hurðinni í tæka tíð þannig að björninn kæmist ekki inn,“ segir Nedza.
Lögregla segir að hvítabjörninn hafi ráðist á Myomick og son hennar þegar þau voru á gangi á milli skólans og heilsugæslunnar á staðnum. Íbúi hafi skotið á björninn og drepið hann eftir að hann hafði ráðist á mæðginin.
Indæl kona
Virginia Washington , bæjarstjóri í bænum St. Michael, segir að íbúar í St Michael og Wales séu harmi slegnir vegna árásarinnar.
„Hún var mjög indæl kona og mjög ábyrg,“ sagði Washington.
Árásir hvítabjarna eru sagðar mjög fátíðar á svæðinu þar sem Inupiaq-frumbyggjar eru í meirihluta. Fram kemur í frétt APM að síðasta mannskæða hvítabjarnaárásin í Alaska hafi átt sér stað árið 1990.
Fulltrúar lögreglu og yfirvalda í Alaska hafa hafið rannsókn á árásinni.