Erlent

Trump og lögmaður hans dæmdir til greiða milljón dala í sektir

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Dómarinn sagði Trump ítrekað hafa freistað þess að nota dómstóla í pólitískum tilgangi.
Dómarinn sagði Trump ítrekað hafa freistað þess að nota dómstóla í pólitískum tilgangi. AP/Andrew Harnik

Alríkisdómari í Bandaríkjunum hefur skipað Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, og einum lögmanna hans að greiða sameiginlega nærri milljón Bandaríkjadala í sektir fyrir tilhæfulausa málsókn þar sem Hillary Clinton, landsnefnd Demókrataflokksins og aðrir meintir óvinir Trump voru sakaðir um umfangsmikið samsæri gegn honum.

Málinu var vísað frá í september og Trump skipað að greiða tugþúsundir dala í nóvember.

Í dómsorðinu gagnrýnir dómarinn Trump og lögmanninn harðlega fyrir að misnota dómskerfið til að koma höggi á andstæðinga sína og byggja mál sitt á röngum upplýsingum og vitleysu. Dómarinn segir að málið hefði aldrei átt að rata fyrir dómstóla.

Málatilbúnaður Trump gekk út á að Clinton og Demókrataflokkurinn hefðu unnið að því með Alríkislögreglunni og fleirum að falsa tengsl milli Trump og Rússlands til að draga úr möguleikum hans í forsetakosningunum árið 2016.

Dómarinn gagnrýndi Trump meðal annars fyrir að hafa uppi ásakanir sem hann mátti vita að voru rugl og nefndi sem dæmi þá kenningu að James Comey, fyrrverandi yfirmaður FBI, hefði plottað með Clinton að sækja Trump til saka.

Trump var hins vegar aldrei sóttur til saka á þessum tíma og þá væri afar ólíklegt að kært væri á milli Clinton og Comey, þar sem síðarnefndi olli kosningabaráttu Clinton ómældum skaða þegar hann ákvað að hefja rannsókn á tölvupóstum frambjóðandans.

Dómarinn sagði enn fremur að þetta mál væri aðeins eitt af mörgum, þar sem Trump hefði freistað þess að nota dómstóla í pólitískum tilgangi. Sagði hann þetta grafa undan réttarríkinu og draga upp þá mynd að lögmenn væru pólitísk peð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×