Skoðun

Dellu­at­hvarf Stefáns

Konráð S. Guðjónsson skrifar

Í átökum fólks á milli verður atburðarásin stundum furðuleg. Þegar mikið er undir skiptir miklu máli að geta sýnt fram á hvers vegna þitt sjónarmið skiptir máli. Stundum verður kappið of mikið og beinum eða óbeinum blekkingum er beitt, sem verða stundum til fyrir misskilning. Í upplýstu samfélagi er slíkt vanalega leiðrétt jafnharðan. En svo eru skýrar blekkingar sem birtast árum saman, þrátt fyrir að vera ítrekað hraktar á einfaldan hátt. Gott dæmi er röng notkun Eflingar, með Stefán Ólafsson í fararbroddi, á úreltum framfærsluviðmiðum.

Krafa Eflingar var: Enginn undir miðgildi

Förum fjögur ár aftur í tímann til janúar 2019. Þá stóðu yfir kjaraviðræður og Efling, þá í samfloti með öðru verkafólki í SGS, notaði svokallað „dæmigert framfærsluviðmið“ (einnig kallað dæmigert neysluviðmið) félag- og vinnumarkaðsráðuneytisins sem viðmið um nauðsynlegan framfærslukostnað. Vandamálið er bara að þetta viðmið er á engan hátt slíkur mælikvarði. Þá skrifaði undirritaður grein þar sem var útskýrt að tilgreint viðmið væri nánar tiltekið mælikvarði á miðgildi neyslu í ákveðnum neysluflokkum. Efnislega var því krafan sú að allir búi við framfærslu við miðgildi. Við blasir að eina leiðin til þess sé að tekjur allra séu þær sömu. Um viðmiðið má lesa á vef ráðuneytisins.

Krafa Eflingar er enn: Enginn undir miðgildi

Fjögur ár eru liðin og enn notar Efling sama gagnslausa mælikvarðann, ásamt vissulega öðrum, til að rökstyðja launahækkanir sinna félagsmanna. Til að gera ítrekaða notkun enn furðulegri hefur viðmiðið ekki verið uppfært í fjögur ár þar sem niðurstaða starfshóps ráðuneytisins árið 2020 var „að ýmsir annmarkar væru á samspili gagna sem notuð eru sem undirlag í útreikningum neysluviðmiða og þeirrar aðferðafræði sem notuð væri. Starfshópurinn komst einnig að þeirri niðurstöðu að það hvernig neysluviðmið eru nýtt í dag færi ekki saman við upprunaleg markmið um notkun þeirra.“ Þess vegna eru viðmiðin til endurskoðunar í ráðuneytinu.

Líkt og árið 2019 vekur athygli að notað sé sífellt við „dæmigert viðmið“ en ekki „grunnviðmið“ þegar svo vill til að grunnviðmiðið „gaf vísbendingar um hvað fólk þyrfti að lágmarki til að framfleyta sér“ eins og segir á vef ráðuneytisins. Ef við leiðréttum útreikninga Eflingar, sem birst hafa í sjónvarpsauglýsingum, með viðmiði sem er sannarlega ætlað að mæla einhverskonar lágmarksframfærslu, þá er niðurstaðan ekki neikvæð afkoma upp á 40.000 kr. heldur jákvæð afkoma, afgangur, upp á 112.000 krónur.

Hærri tekjur á höfuðborgarsvæðinu=Hærra framfærsluviðmið

Miðað við það sem er helst í umræðunni nú, hvort rétt sé að Eflingarfélagar fái meiri launahækkanir en fólk sem vinnur nákvæmlega sömu störf annars staðar á landinu, hefur dæmigerða neysluviðmiðið verið blygðunarlaust notað. Viðmiðið sýnir hærri framfærslukostnað á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Við engu öðru er að búast þar sem tekjur á mann voru 10% hærri á höfuðborgarsvæðinu árið 2019 þegar viðmiðið var síðast uppfært. Þeir sem hafa hærri tekjur neyta meira og því óhjákvæmilegt að dæmigerða neysluviðmiðið verði hærra í hóp þar sem tekjurnar eru hærri. Fyrir utan þetta er ýmislegt í málflutningnum um kostnað af framfærslu eftir landshlutum sem stenst illa skoðun, en það er önnur saga.

Sorgleg vinnubrögð fyrrum fræðimanns

Staðreyndir málsins eru einfaldar: Þau gögn sem Stefán Ólafsson og Efling leggja til grundvallar því að tekjur dugi ekki til framfærslu segja nákvæmlega ekkert um hvort að tekjur dugi til framfærslu. Ekkert. Margir kannast við að hafa óvart lesið tommur en ekki sentimetra af málbandi. Það er það sem Efling og Stefán eru að gera, nema ítrekað um árabil. Mjög ólíklegt er að það sé óvart.

Ekki er hægt að álykta annað en að þessi framganga fyrrum fræðimanns sé sorgleg. Góður fræðimaður í félagsfræði á að kunna að fara með töluleg gögn og ekki leggjast svo lágt að villa ítrekað um fyrir almenningi á mjög skýran hátt. Stefán mætti gjarnan útskýra hvort um sé að ræða þekkingarleysi, misskilning eða vísvitandi blekkingar. Erfitt er að ímynda sér aðrar skýringar.

Hingað og ekki lengra

Það er svo afar umhugsunarvert að góður málstaður eins og hagsmunavarsla fyrir verkafólk þarfnist blekkinga. Hversu góður er raunverulegur málstaður ef hann þarfnast endurtekinna blekkinga? Snýst barátta Eflingar kannski um eitthvað allt annað en kjör félagsmanna?

Nú er mál að linni. Sama hvað fólki finnst um deilur Eflingar og SA, og allt sem að þeim snýr, hljóta allir að vera sammála um að endurteknar blekkingar þurfi að stöðva. Þá fyrst má vonandi hefja uppbyggilega og gagnlega umræðu um framfærslu verkafólks á íslenskum vinnumarkaði.

Höfundur er efnahagsráðgjafi Samtaka atvinnulífsins.




Skoðun

Skoðun

Á­kall um kjark

Guðbjörg Pálsdóttir,Kolbrún Halldórsdóttir,Steinunn Þórðardóttir,Svana Helen Björnsdóttir skrifar

Sjá meira


×