Kennarasamband Bretlands telur að minnst 85 prósent allra grunnskóla í landinu þurfi að loka alveg eða að hluta til vegna verkfallanna. Menntamálaráðherra landsins sagði þó í yfirlýsingu fyrr í dag að flestir skólar væru opnir þó einhverjar breytingar yrðu á skóladeginum vegna manneklu.
Verkföllin teygja sig yfir nær allan opinbera geirann. Í dag taka verkföll til um 124 opinberra stofnana. Launþegar hafa krafist launahækkana og betri kjara.
Kennarar í Englandi og Wales sem eru í stéttarfélaginu National Education Union hafa lagt niður störf í dag. Þeir munu jafnframt leggja niður störf 15. febrúar og 16. mars. Í sumum héruðum munu kennarar leggja niður störf fleiri daga. Þá hafa kennarar í Skotlandi, í stéttarfélaginu Educational Institute of Scotland, lagt niður störf en aðeins í Clackmannanshire og Aberdeen. Þar munu kennarar í tveimur héruðum leggja niður störf daglega til 6. febrúar.
Vilja launahækkanir í takt við verðbólgu
Kennarar í Englandi og Wales fengu 5 prósenta launahækkun í fyrra en vegna verðbólgu segja þeir að launahækkunin hafi engin verið. Í Skotlandi höfnuðu kennarar kjarasamning þar sem kveðið var á um fimm prósenta hækkun.
Eins og áður segir eru kennarar ekki einir um að leggja niður störf. Starfsmenn lestarkerfisins hafa lagt niður störf og gera það aftur á föstudag. Um hundrað þúsund opinberir starfsmenn hafa lagt niður störf í dag og hafa farið fram á 10 prósenta launahækkun.
Um sjötíu þúsund háskólastarfsmenn í 150 háskólum ætla að leggja niður störf í átján daga næstu tvo mánuði. Þeir hafa farið fram á 12 prósenta launahækkun, vilja aukin lífeyrisréttindi og að tekist verði á við mikið álag háskólastarfsmanna.
Strætó- og rútubílstjórar leggja niður störf í dag, slökkviliðsmenn, sjúkraflutningamenn, hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfarar, ljósmæður og starfsmenn póstþjónustu. Ljóst er að verkföllin munu hafa mikil áhrif í Bretlandi.