Hrvoje Horvat hafði stýrt Króatíu í tvö ár en hann og hans teymi varð að taka pokann sinn eftir HM. Markmið Króatíu hafði verið að komast áfram í 8-liða úrslit.
Króatar voru reyndar eina liðið sem heimsmeisturum Danmerkur mistókst að vinna en liðin gerðu 32-32 jafntefli í milliriðli. Tap gegn Egyptalandi í fyrsta leik mótsins, eina tap Króatíu, reyndist hins vegar dýrkeypt.
Hinn sextugi Goran Perkovac hefur verið ráðinn í stað Horvats. Perkovac var á sínum tíma landsliðsmaður Króatíu og lék meðal annars með liðinu sem varð Ólympíumeistari í Atlanta árið 1996.
Perkovac hefur áður þjálfað landslið Grikklands árin 2007-2008 og landslið Sviss árin 2008-2013. Hann hefur stærstan hluta þjálfaraferilsins þjálfað í Sviss, lið á borð við Kadetten Schaffhausen, Pfadi Winterthur og Kriens Luzern, en einnig í Þýskalandi.