Á miðvikudaginn var greint frá því að hætta ætti rekstri TF-SIF, segja öllum flugmönnum hennar upp og selja vélina. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur verið gagnrýndur fyrir ákvörðunina og hefur formaður fjárlaganefndar boðað til aukafundar vegna sölunnar.
Í ályktun sem Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) sendi frá sér í gær segir að ákvörðunin sé óverjanleg með tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga og samstarfs íslenska ríkisins við önnur ríki. Ákvörðunin vegi að þjóðaröryggisstefnu Íslands.
„Í ljósi þess má vænta að ráðherra hafi heldur ekki upplýst þjóðaröryggisráð um áform sín áður en hann réðist til verka og þannig brugðist skyldum sínum samkvæmt lögum um þjóðaröryggisráð,“ segir í ályktuninni.
Þá kemur fram að Landhelgisgæslan geti ekki uppfyllt skyldur sínar án sérútbúinnar flugvélar. Leitar- og björgunarsvæði Íslands er um 1,9 milljónir ferkílómetra.
„Hvorki í lögum um Landhelgisgæsluna né í lögum um loftferðir er að finna heimildir til að framselja skyldur stofnunarinnar um öryggisgæslu og löggæslu á hafinu í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, samninga við önnur ríki og ákvæði laga,“ segir í ályktuninni.
FÍA útilokar ekki að uppsagnir á flugmönnum vélarinnar fari fyrir Félagsdómi komi til þess. Að mati félagsins eru uppsagnirnar grimm atlaga að starfsmönnum Landhelgisgæslunnar þar sem engin heimild er í fjárlögum fyrir sölunni.