Stór dagur er runninn upp í deilu Eflingar við SA annars vegar og ríkissáttasemjara hins vegar. Nú stendur yfir málflutningur í máli Eflingar og ríkissáttasemjara fyrir héraðsdómi en sáttasemjari hefur farið fram á að Efling afhendi kjörskrá sína svo hann geti lagt miðlunartillögu sína í atkvæðagreiðslu hjá félagsfólki. Líklegt er að héraðsdómur gefi sér helgina til að taka ákvörðun.
Klukkan fjögur síðdegis kemur Félagsdómur svo saman til að taka fyrir mál SA og Eflingar. Fyrirhuguð eru verkföll meðal Eflingarliða á Íslandshótelum og eiga þau að hefjast að óbreyttu á þriðjudag. Samtök atvinnulífsins vilja fá úr því skorið hvort verkföllin séu lögleg þar sem miðlunartillaga liggur fyrir frá ríkissáttasemjara.
Báðar fylkingar eru vissar um sigur fyrir Félagsdómi.
„Fyrir Félagsdómi er ég alveg 100 prósent sannfærð, meira en hér, vegna þess að málatilbúnaður Samtaka atvinnulífsins er eins fráleitur og hægt er að hugsa sér,“ sagði Sólveig Anna í samtali við fréttastofu á leið inn í dómsal í héraðsdómi eftir hádegi í dag.
„Við erum raunsæ. Við teljum að lögin séu okkar megin. Það er okkar skoðun að enginn sé hafinn yfir lögin, ekki Efling heldur, og ég vænti þess að Félagsdómur verði tiltölulega fljótur að úrskurða í þessu máli,“ segir Halldór Benjamín í samtali við fréttastofu.
Auk dómsmálanna sem hér hafa verið rakin hófst atkvæðagreiðsla um verkfallsboðun hjá Olíudreifingu, Skeljungi, Samskipum, Berjaya hótelum og Edition hótelinu í hádeginu í dag. Atkvæðagreiðslunni lýkur klukkan 18 næstkomandi þriðjudag. Verði verkfallsboðunin samþykkt hefjast þau verkföll á hádegi þriðjudaginn 15. febrúar.