Erlent

Leggur til tveggja kjör­tíma­bila há­mark en stefnir á sitt þriðja

Árni Sæberg skrifar
Cruz vill aðeins að öldungardeildarþingmenn fái að sitja í tvö kjörtímabil. Hann vill líka sitja þriðja kjörtímabilið sitt.
Cruz vill aðeins að öldungardeildarþingmenn fái að sitja í tvö kjörtímabil. Hann vill líka sitja þriðja kjörtímabilið sitt. Scott Olson/Getty

Ted Cruz, öldungadeildarþingmaður Repúblikana, hefur lagt fram frumvarp um tveggja kjörtímabila hámark fyrir þingmenn Bandaríkjaþings. Sjálfur hefur hann þó tilkynnt að hann muni sækjast eftir endurkjöri í annað sinn.

Cruz lagði frumvarpið fram ásamt Ralph Norman, fulltrúadeildarþingmanni Repúblikana. Þeir segja tilgang hámarksins vera að koma í veg fyrir að þingmenn sitji varanlega á þingi og verði þar af leiðandi ekki ábyrgir gagnvart bandarísku þjóðinni.

Þá halda þeir því fram að þingmenn sem hafi stýrt landinu lengi vinni aðeins að eigin sérhagsmunum.

Hafi aldrei sagst ætla að hætta eftir tvö kjörtímabil

Þáttastjórnandi þjóðmálaþáttarins Face the nation á sjónvarpsstöðinni CBS spurði Cruz hvers vegna hann hefði tilkynnt að hann ætli fram í þriðja skiptið, þegar hann var til viðtals í dag.

„Sjáðu til, ég er ástríðufullur baráttumaður fyrir hámarki á lengd þingsetu. Ég held að þingið myndi virka miklu betur ef öldungardeildarþingmenn mættu aðeins sitja í tvö kjörtímabil, og fulltrúar í þrjú. Ég hef lagt til stjórnarskrárbreytingarfrumvarp þess efnis að það yrði fest í stjórnarskrána. Og ef og þegar frumvarpið verður samþykkt mun ég glaður stíga til hliðar. En ég hef aldrei sagst munu einhliða fara eftir frumvarpinu,“ svaraði Cruz.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×