Erlent

Hvert húsið hrundi á eftir öðru

Samúel Karl Ólason skrifar
Leitað í rústum í Adana í Tyrklandi.
Leitað í rústum í Adana í Tyrklandi. AP/Khalil Hamra

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur lýst yfir sjö daga þjóðarsorg í kjölfar öflugra jarðskjálfta sem orðið hafa í Tyrklandi og Sýrlandi. Fjölmargir eru dánir en þeim mun líklegast fjölga mikið á næstu dögum. Skjálftarnir ollu gífurlegum skemmdum í báðum löndum.

Upprunalegi skjálftinn var 7,8 stig og hafa nokkrir eftirskjálftar fylgt þeim stóra. Minnst 145 eftirskjálftar hafa greinst og þar af þrír stærri en sex stig.

Fjölmörg hús hafa hrunið í bæði Tyrklandi og Sýrlandi og eru skemmdirnar mjög umfangsmiklar. Fyrir skjálftana hafa vetrarhörkur valdið íbúum í Suður-Tyrklandi og Norður-Sýrlandi miklum ama. Milljónir manna halda til í flóttamannabúðum á svæðinu eftir langvarandi átök í Sýrlandi.

„Þetta var eins og heimsendir,“ segir Abdul Salam al-Mahmoud, sem býr í Atareb í norðurhluta Sýrlands. „Það er mjög kalt og mikil rigning. Það þarf að bjarga fólki.“

Heilbrigðisráðherra Tyrklands segir minnst 1.651 hafa dáið í Tyrklandi og 11.119 séu slasaðir. Vitað er að nærri því 1.300 hafi dáið í Sýrlandi, samkvæmt yfirvöldum þar en líklegt er þessar tölur muni hækka á komandi dögum.

Tyrkir hafa birt mörg myndbönd á samfélagsmiðlum í dag sem sýna heilu fjölbýlishúsin hrynja. Ljóst er að eyðileggingin er gífurlega mikil.

Fjölmörg ríki heims eru að senda björgunarsveitir og annars konar aðstoð á svæðið

Hér að neðan má sjá frétt Stöðvar 2 um jarðskjálftana í Tyrklandi og Sýrlandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×