„Gengur í sunnan 20-28 m/s í skamman tíma með slyddu eða snjókomu. Hætt við eldingaveðri. Snýst síðan í suðvestan 15-23 með éljum, fyrst vestantil en eftir hádegi austanlands. Dregur úr vindi seinnipartinn. Hiti víða í kringum frostmark, en allt að 5 stigum austast. Vægt frost í kvöld,“ segir í veðurspá frá því klukkan 4 í morgun.
„Suðvestan 8-15 og él á morgun, en bjart norðaustantil. Frost 2 til 9 stig. Norðvestan 10-20 annað kvöld með éljum norðan- og vestanlands, hvassast við suðvesturströndina.“
Í athugasemdum veðurfræðings segir að búast megi við skammvinnum sunnan stormi eða roki, fyrst vestanlands. Hætt sé við eldingum. Þá er fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast vel með veðurspám.
Vísir verður á vaktinni og greinir frá veðri og færð fram eftir degi.