Öryggismyndavélar frá framleiðendum í Kína hafa þegar verið bannaðar í opinberum byggingum í Bandaríkjunum og á Bretlandseyjum. Bandarísk yfirvöld segja vélarnar óásættanlega ógn við þjóðaröryggi, vegna möguleikans á njósnum og annarri misnotkun.
Varnarmálaráðherra Ástralíu, Richard Marles, sagði í morgun að ákveðið hefði verið að ráðast í rannsókn á eftirlitsbúnaði hjá hinum opinbera eftir að upp komst að að minnsta kosti 913 öryggismyndavélar frá Kína hefðu verið settar upp í fleiri en 250 opinberum byggingum.
„Þar sem þær finnast verða þessar vélar fjarlægðar,“ sagði Marles í samtali við ABC Radio. „Þetta er vandamál og við ætlum að takast á við það.“ Marles sagði augljóst að myndavélarnar hefðu valdið aukinni áhættu í nokkurn tíma en nú stæði til að tryggja öryggi allra þeirra staða sem um ræddi.
Anthony Albanese forsætisráðherra sagðist á blaðamannafundi ekki telja að ákvörðunin myndi hafa skaðleg áhrif á diplómatísk samskipti við Kína en hún snérist um að standa vörð um þjóðarhagsmuni Ástrala.