Lífið

Fólk hneykslaðist þegar hún lét loka frekju­skarðinu

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Í síðasta þætti af Tónlistarmönnunum okkar fór tónlistarkonan Andrea Gylfadóttir yfir ferilinn.
Í síðasta þætti af Tónlistarmönnunum okkar fór tónlistarkonan Andrea Gylfadóttir yfir ferilinn. Stöð 2

„Ég var mjög opin og tók þátt í skemmtunum og spilaði í öllum partýum, en ég leit ekki endilega á þetta sem eitthvað sem ég ætlaði að gera,“ segir Andrea Gylfadóttir sem fór yfir glæstan tónlistarferilinn í nýjasta þætti af Tónlistarmönnunum okkar.

Þrátt fyrir að Andrea hafi ekki ætlað sér að gera feril úr söngnum gripu örlögin sannarlega í taumanna þegar hún var ráðin sem söngkona hljómsveitarinnar Grafík og tók þar við af Helga Björns. Varð hún fljótt ein vinsælasta söngkona landsins.

Nokkru síðar stofnaði Andrea hljómsveitina Todmobile ásamt félögum sínum úr Tónlistarskólanum, þeim Þorvaldi Bjarna og Eyþóri Arnalds. Andrea segir fólk ekki hafa haft mikla trú á þeirri hljómsveit til að byrja með, en eftir að hún gaf út lagið Stelpurokk árið 1989 varð hún ein vinsælasta sveit landsins.

„Fólk ályktar bara eitthvað, það leggur saman tvo og tvo og fær fimm“

Á þeim tíma voru konur ekki eins áberandi og karlar í tónlistarbransanum. Andrea segir fólk gjarnan hafa gert ráð fyrir því Andrea sæi bara um sönginn en strákarnir í bandinu sæju um alla aðra vinnu.

„Þó að ég hafi skrifað flesta texta Todmobile þá heldur fólk enn þann dag í dag að þeir séu eftir strákana.“

Það er þó aðeins ein af þeim ranghugmyndum fólk hefur haft um Andreu. „Fólk ályktar bara eitthvað. Það leggur saman tvo og tvo og fær fimm,“ segir hún.

„Vorum kannski meiri vinir en par“

Hún segir til dæmis frá því að fólk hafi gert ráð fyrir því að hún og Eyþór Arnalds væru hjón, sem þau voru aldrei. Andrea bjó þó með Þorvaldi Bjarna í nokkur ár.

„Það var ekkert alltaf auðvelt. Við vorum náttúrlega saman að spila, í vinnunni og stúdíóinu. Maður tók stúdíóið og vinnuna með sér heim og heimilið í vinnuna. Við vorum ekkert alltaf sammála um allt, en þetta gekk ágætlega.“

Þó svo að sambandið hafi ekki gengið héldu þau þó áfram að vinna saman. „Við vorum eiginlega kannski meiri vinir en par, eitthvað í þá áttina,“ segir hún.

Andrea Gylfa og Þorvaldur Bjarni voru par um tíma.Stöð 2

Hneykslaði fólk þegar hún lét laga tennurnar

Þjóðþekktir einstaklingar þurfa oft að lifa við það að fólk leyfi sér að hafa skoðun á flestöllu sem það gerir.  Þetta upplifði Andrea þegar hún lét laga tennur sínar fyrir nokkrum árum en frá tvítugsaldri hafði hún verið með stórt frekjuskarð.

„Ég fékk svona beineyðingu, þannig tennurnar byrjuðu að losna og fara af stað og voru bara á leiðinni út. Það var ekki hægt að rétta neitt eða gera neitt. Þetta var ekki þegar ég var ung, þetta byrjar svona um tvítugt og svo varð þetta alltaf meira og meira.“

Mörgum þótti frekjuskarðið mikilvægur hluti af hennar karakter, þannig að þegar hún lét loka því urðu einhverjir hneykslaðir. „Fólki finnst það hafa rétt á því að ræða í rauninni hvað sem er,“ segir Andrea.

Hún segist þó hafa svarað einum á þann hátt að þetta væri rétt eins og hún færi að hneykslast á því að fótbrotinn einstaklingur færi upp á spítala, því henni þætti svo flott að vera fótbrotinn.

Klippa: Fólk hneykslaðist þegar hún lét loka frekju­skarðinu

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×